Evrópskar hlutabréfavísitölur hækkuðu allar í viðskiptum dagsins í dag og í sumum tilvikum var um verulegar hækkanir að ræða. Mario Draghi, seðlabankastjóri Evrópu, lýsti fyrr í dag útvíkkun á örvunaraðgerðum bankans, sem fela m.a. í sér auknar heimildir bankans til kaupa á skuldabréfum á markaði. Virðast þessar yfirlýsingar hafa vegið upp á móti fremur döprum spám bankans um hagvöxt á evrusvæðinu í ár og á næsta ári.

Breska FTSE vísitalan hækkaði um 1,82% í dag, Þýska DAX um 2,69% og franska CAC vísitalan um 2,17%. Það sem af er degi eru minni hreyfingar á bandarískum vísitölum, en Dow Jones hafði um klukkan 17:45 í dag hækkað um 0,43%, S&P 500 vísitalan um 0,50%, en Nasdaq vísitaln hafði lækkað um 0,03%. Í Asíu lækkaði Hang Seng vísitalan í Hong Kong um 1,18% og hin kínverska Shangai Composite um 0,20%, en japanska Nikkei vísitalan hækkaði um 0,48%.