Hlutabréf á asíumörkuðum hækkuðu í nótt og áhyggjur af lánshæfismati Ástralíu hjöðnuðu eftir kosningar. Gerðist það eftir að matsfyrirtækið Moody´s tilkynnti að skammtímaóstöðugleiki í stjórnmálum landsins hefði lítil áhrif á lánshæfismatið. Hækkuðu í kjölfarið hlutabréf eilítið á mörkuðum Ástralíu sem og ástralski dalurinn.

Niðurstaða óviss

Enn er ekki komið í ljós hver er sigurvegari kosninganna á laugardaginn, en ólíklegt er að stóru flokkarnir nái að mynda hreina meirihlutastjórn. Þess í stað þurfa þeir að treysta á minni flokka og sjálfstæða þingmenn ætli þeir að freista þess að mynda meirihlutastjórn.

Ef bandalag hægriflokka, það er frjálslyndra og þjóðarflokksins, tekst ekki að mynda meirihluta eftir kosningarnar verður það í fyrsta skipti í 85 ára sögu landsins að ríkisstjórn sé ekki endurkosin eftir eitt kjörtímabil.

Mikill óstöðugleiki hefur verið í stjórnmálum landsins síðustu ár, en fimm forsætisráðherrar hafa setið við völd síðan 2010. Komst forsætisráðherrann Malcolm Turnbull til valda með því að fara gegn forvera sínum Tony Abbott fyrir 10 mánuðum í innanflokksátökum. Kallaði hann eftir þessum kosningum til að tryggja umboð sitt sem virðist ekki vera að takast.

Hækkanir í nótt

Hækkaði Nikkei vísitalan um 0,6% meðan CSI300 vísitalan kínverska hækkaði um 1,8%, og Shanghai Composite vísitalan um 2%. Hang Seng vísitalan í Hong Kong hækkaði um 1,6%.

Hlutabréfavísitala Ástralíu, S&P/ASX 200 hækkaði um 0,67% en ástralski dalurinn fór upp í 0,7510 Bandaríkjadali. Er það hæsta gengi hans eftir að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi varð ljós. Markaðir í Bandaríkjunum verða lokaðir í dag vegna 4. júlí, sjálfstæðisdags landsins, þegar 240 ára afmæli sjálfstæðisyfirlýsingarinnar verður fagnað.