Hlutabréf hækkuðu á helstu mörkuðum í Asíu í morgun eftir að japanski seðlabankinn lýsti því yfir opinberleg að hann myndi koma fjármálakerfinu þar í landi til aðstoðar ef á þyrfti að halda. Þá höfðu bættar hagtölur í Bandaríkjunum einnig áhrif á fjárfesta að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

MSCI Kyrrahafsvísitalan hækkaði um 1,1% í dag. Í Japan hækkaði Nikkei vísitalan um 0,7%, í Hong Kong hækkaði Hang Seng vísitalan um 0,9% og í Kína hækkaði CSI 300 vísitalan um 2%. Í Ástralíu hækkaði S&P 200 vísitalan um 0,8% og í Singapúr hækkaði Straits vísitalan um 1,2%.

Verð á hlutabréfum lækkaði hins vegar á helstu mörkuðum í Evrópu við opnun í morgun, en nokkur hluti þeirra hefur þó hækkað aftur. FTSEurofirst 300 vísitalan hefur lækkað um 0,3% það sem af er degi. Í Amsterdam, Zurich, Mílanó og París hafa hlutabréf lækkað á bilinu 0,1-1,1%. Í Frankfurt hefur DAX vísitalan þó hækkað um 0,7% en í Lundúnum stendur FTSE 100 vísitalan í stað.