Hlutabréfamarkaðir hafa hækkaði lítillega í Evrópu í morgun, en að sögn Reuters fréttastofunnar eru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiða hækkanir dagsins.

Þó eru fjárfestar sagðir bíða eftir fundi peningastefnunefndar evrópska seðlabankans í dag, en þá kemur í ljós hvort að stýrivextir bankans verða enn 1% og eins hvort að seðlabankinn muni hefja aftur að kaupa ríkisskuldabréf af einstaka ríkjum evrusvæðisins. Nú er til að mynda stefnt að fyrstu skuldabréfaútgáfu Spánar eftir að landið lækkaði í lánshæfismati stærstu matsfyrirtækjanna.

FTSEurofirst 300 hefur hækkað um 0,6% það sem af er degi. Í Lundúnum hefur FTSE 100 vísitalan hækkaði um 0,5%, í Amsterdam hefur AEX vísitalan hækkað um 0,7% og í Frankfurt hefur DAX vísitalan hækkað um 0,9%.

Í París hefur CAC 40 vísitalan hækkað um 1% og í Zurich hefur SMI vísitalan hækkað um 0,5%.

Þá hafa hlutabréf einnig hækkað á Norðurlöndunum. Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan hækkað um 0,6%, í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan hækkað um 0,3 og í Osló hefur OBX vísitalan hækkað um 0,8%.

Flestir markaðir voru lokaðir í Asíu í dag.