Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland tók stökk annan daginn í röð í viðskiptum dagsins. Nam hækkunin 2,64% sem er litlu minni hækkun en í gær, og endaði vísitalan í 1.736,53 stigum. Heildarvelta á hlutabréfamarkaði nam heilum 5,56 milljörðum króna.

Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði einnig, eða um 0,25% og endaði hún í 1.227,61 stigi. Heildarveltan með skuldabréf nam 6,87 milljörðum króna.

Icelandair og Síminn hækkuðu mest

Mesta hækkunin var á gengi bréfa Icelandair Group, nam hún 4,52% og fæst nú hvert bréf félagsins á 25,45 krónur. Langsamlega mest viðskipti voru með bréf félagsins eða sem nam 1,3 milljörðum króna.

Næst mesta hækkunin var á gengi bréfa Símans, eða um 3,70% í 793 milljón króna viðskiptum. Fæst nú hvert bréf félagsins á 3,08 krónur.

Össur og HB Grandi lækkuðu

Einu hlutabréfin sem lækkuðu í kauphöllinni í dag voru bréf í Össur sem lækkuðu um 6,86% í 21 milljón króna viðskiptum og bréf HB Granda sem lækkuðu um 1,09% í smávægilegum viðskiptum, eða sem nam 1,4 milljónum króna.

Bréf þess fyrrnefnda fást nú á 400,50 krónur og bréf síðarnefnda fyrirtækisins fást á 27,25 krónur.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala GAMMA hækkaði um 2,4% í dag í 5,5 milljarða viðskiptum.

Skuldabréfavísitala GAMMA hækkaði um 0,2% í dag í 6,3 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,2% í 1,4 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,4% í 4,9 milljarða viðskiptum.