Miklar hækkanir á hlutabréfamörkuðum í London hafa orðið það sem af er degi, en FTSE 100 vísitalan er búin að hækka um 2,82% síðan markaðir opnuðu í morgun.

Flugfélög og bankar hækka á ný

EasyJet hefur hækkað í dag um 4,41%, og Ryan air um 4,37% en Barclays hefur hækkað um 4.01% og Lloyds um 6,43%. Voru það einmitt flugfélög og bankar sem tóku á sig hvað mestu lækkanirnar síðustu tvo daga þegar markaðurinn hrundi í kjölfar úrslita þjóðaratkvæðagreiðslunnar um úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu.

Þau fyrirtæki sem hafa hækkað mest er IP Group sem hækkaði um 13,29%, en það er fjárfestingarfyrirtæki sem fjárfestir í tæknigeiranum. AO World hækkaði um 12,37%, en það sérhæfir sig í heimilistækjum. Prudential hækkaði um 9,95% en það er fjárfestinga og líftryggingafyrirtæki. Land Securities Group hækkaði svo um 9,45%, en það er stærsta fasteignafyrirtæki Bretlands.