Úrvalsvísitalan hefur lækkað umtalsvert frá áramótum og stendur nú í 1.725 stigum. Markaðurinn virðist þó vera að taka örlítinn kipp eftir síðustu lækkanir og hefur gengi flestra bréfa hækkað það sem af er degi.

Icelandair hefur hækkað um 2,38% í morgunsárið í 401 milljón króna veltu. Gengi bréfanna er nú 27,95 krónur, sem er þó umtalsvert lægra en það var í lok apríl. Þá kostaði hver hlutur um rúmlega 38 krónur.

Hagar hafa einnig hækkað í dag og það um 2,28% í 588 milljón króna veltu. Gengi bréfanna stendur nú í 48,17 krónum.

Marel hefur hækkað um 1,59% það sem af er degi og er hvert bréf nú skráð á 255 krónur. Velta með bréfin nemur um 337 milljónum.