Lyfjarisinn Pfizer hefur hækkað áætlaðar sölutekjur af Covid-19 bóluefni sínu um 7,5% fyrir árið 2021 og áætlar nú að salan verði um 36 milljarðar dala. Aukna sölu má rekja til nýrra samninga um örvunarskammta ásamt heimildum til að bólusetja yngri aldurshópa með bóluefninu.

Sala á bóluefninu nam 13 milljörðum dala á þriðja ársfjórðungi en sjö greiningaraðilar höfðu spáð að meðaltali að salan yrði um 10,9 milljarðar dala samkvæmt Refinitiv. Pfizer deilir kostnaði og afkomu af bóluefninu jafnt á milli sín og samstarfsaðila sínum, þýska líftæknifyrirtækinu BioNTech.

Pfizer stefnir á að afhenda 2,3 milljarða skammta í ár, af tæplega 3 milljörðum framleiddum skömmtum sem fyrirtækið stefnir á að framleiða í ár.

Samkeppnisaðilar á borð við Moderna og Johnson & Johnson hafa lent í framleiðsluörðugleikum sem hefur hjálpað Pfizer í viðræðum við ríkisstjórnir, að því er kemur fram í frétt Reuters .