Rekstrarhagnaður Eimskips fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 15,9 til 16,6 milljónum evra á fyrsta ársfjórðungi samkvæmt uppfærðu stjórnendauppgjöri. Í tilkynningu fyrir viku síðan áætlaði félagið að EBITDA hagnaðurinn fyrir fyrsta fjórðung yrði á bilinu 13,9-14,9 milljónir evra. Eimskip áætlar því að EBITDA hagnaðurinn verði allt að tveimur milljónum evra hærri en það tilkynnti um fyrir rúmri viku síðan. EBITDA hagnaður félagsins á sama tímabili í fyrra var 9,3 milljónir evra. Þetta kemur fram í tilkynningu félagins til Kauphallarinnar í gærkvöldi. Eimskip hefur hækkað um 2,2% það sem af er af dagi.

Að sama skapi færði Eimskip upp áætlaðan rekstrarhagnað að teknu tilliti til afskrifta (EBIT) úr 2,2-3,2 milljónum evra í 4,2-4,9 milljónir. Eimskips skilaði 1,6 milljóna evra EBIT tapi á fyrsta ársfjórðungi 2020.

Félagið segir að helsta ástæðan fyrir betri afkomu en í fyrri afkomutilkynningunni var „of varfærið mat“ á áætluðum tekjum í mars og gert var ráð fyrir meiri áhrifum af krefjandi ástæðum á erlendum mörkuðum á flutningsmiðlunarstarfsemi félagsins. Þar að auki hafi áhrif af IFRS 16 reikningsskilastaðlinum verið vanmetin vegna endurnýjunar á leigusamningum um leiguskip og fasteignir.

Miðað við uppfærða stjórnendauppgjörið var EBITDA hagnaður Eimskips allt að 7,3 milljónum evra, eða 78%, hærri en á síðasta ári. Félagið segir að þrátt fyrir að framangreindar upplýsingar sýni hærri rauntölur úr rekstri milli tímabila þá sé hún innan marka afkomuspár fyrir árið 2021 sem er á bilinu 68-77 milljónir evra. Þá hafi EBITDA á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs verið undir væntingum.

Vinna við uppgjör fyrsta ársfjórðung stendur yfir og getur afkoman tekið breytingum þar til henni er lokið. Eimskip birtir uppgjör fyrsta ársfjórðungs 2021 eftir lokun markaða þriðjudaginn 11. maí.