Stjórn Arion banka hefur samþykkt ný fjárhagsleg markmið bankans í kjölfar uppfærslu á fimm ára viðskiptaáætlun. Meðal markmiða Arion er að árleg arðsemi eigin fjár verði yfir 13% en fyrra viðmið bankans var 10%. Fjárhagsleg markmið bankans eru endurskoðuð árlega og horft er til allt að þriggja ára, samkvæmt tilkynningu bankans.

Jafnframt stefnir Arion á að rekstrartekjur sem hlutfall af áhættuvegnum eignum verði yfir 7,3% en markmið bankans miðuðu áður við 6,7%.

Þá setur Arion sér nýtt markmið um að vöxtur eigin tryggingaiðgjalda verði meira en 3 prósentustigum hærri en vöxtur innlends tryggingamarkaðar.

Hvað varðar lánavöxt þá verður stefnan sett á að nafnvöxtur verði í takt við hagvöxt. Svo virðist sem Arion stefni ekki lengur að því að íbúðarlánavöxtur verði meiri en vöxtur fyrirtækjalána líkt og fyrra markmið bankans kvað á um.

Markmið um kostnaðarhlutfall, hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 og arðgreiðslustefna eru öll óbreytt. Kostnaðarhlutfall miðast enn við að vera undir 45%. hlutfall almenns eiginfjárþáttar í kringum 17% og arðgreiðslustefna, sem tekur bæði til arðgreiðslna og endurkaupa, verður áfram 50%.