Flugvélaframleiðandinn Boeing hyggst hækka eftirlaunaaldur forstjórans Dave Calhoun úr 65 árum upp í 70 ár vegna „mikilla framfara“ hans í að koma félaginu í gegnum kyrrsetningar MAX-737 vélanna og heimsfaraldurinn. Calhoun er 64 ára og virðist stjórnin því vilja halda honum í forstjórastólnum næstu árin.

„Undir sterkri forystu Dave, hefur Boeing siglt skilvirkilega í gegnum einn mest krefjandi og flóknasta kafla í langri sögu félagins,“ segir Larry Kellner stjórnarformaður í tilkynningu Boeing. „Það er í þágu fyrirtækisins og annarra hagsmunaaðila að gefa stjórninni og Dave sveigjanleika svo hann geti haldið áfram í hlutverki sínu fram yfir hefðbundinn eftirlaunaaldur fyrirtækisins.“

Fyrirtækið tilkynnti á sama tíma að fjármálastjórinn Greg Smith muni láta störfum þann 9. júlí næstkomandi. Boeing leitar nú að eftirmanni Smith sem hafði leitt viðsnúning fyrirtækisins áður en Calhoun tók við sem forstjóri í byrjun síðasta árs, að því er kemur fram í frétt Bloomberg .

Tilkynning Boeing kemur rétt fyrir aðalfund félagins en nokkur ágreiningur ríkir meðal fjárfesta. Lífeyrissjóðurinn California State Teachers' Retirement System, hefur gefið út að hann muni kjósa gegn þremur stjórnarmönnum sem hafa setið lengst í stjórninni, þar á meðal formanninum Kellner.

Sjá einnig: Vilja skipta út stjórnarformanni Boeing

Ráðgjafafyrirtækið Glass Lewis hefur einnig stutt gagngera umbreytingu á stjórninni og segir að gáleysi hennar hafi leitt til flugslysanna tveggja sem leiddu til kyrrsetninga 737 MAX vélanna. Fjárfestar hafa óskað eftir nánari upplýsingum frá Calhoun hvernig hann hyggist bregðast við taprekstri, lækka 64 milljarða dala skuldir félagsins og koma í veg fyrir að Airbus nái langtíma yfirburðum á markaðnum.