Fastir vextir óverðtryggða húsnæðislána hjá Íslandsbanka munu hækka þriðjudaginn næsta. Innlánsvextir með föstum vöxtum til tólf mánaða hjá bankanum hækka einnig úr 1,00% í 1,20%. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef bankans.

Fastir vextir á þriggja ára óverðtryggðum húsnæðislánum munu hækka úr 4,10% í 4,20% og úr 5,20% í 5,30% á viðbótarhúsnæðislánum. Vaxtakjör Íslandsbanki í þessum flokki eru enn með þeim hagstæðustu á markaðnum. Arion banki lækkaði sína föstu óverðtryggðu íbúðalánavexti til þriggja ára úr 4,49% í 4,20% þann 23. febrúar síðasta. Þá býður Landsbankinn upp á 4,25% vexti í þessum flokki.

Íslandsbanki mun einnig hækka fasta vexti óverðtryggðra lána til fimm ára úr 4,40% í 4,70%. Fastir vextir á fimm ára óverðtryggðum viðbótarhúsnæðislánum Íslandsbanka í hækka sömuleiðis um 0,3% eða úr 5,50% í 5,80%.

Íslandsbanki hyggst hætta að innheimta lántökugjald á grænum húsnæðislánum við fjármögnun á vistvænu húsnæði. Einnig mun bankinn veita 0,10% vaxtaafslátt á þessum lánum en breytingarnar taka gildi á þriðjudaginn 9. mars.

Vextir Íslandsbanka á nýjum lánum í appi lækka um 0,30% prósentustig eða úr 5,95% í 5,65%.