Flugverð frá Keflavíkurflugvelli hefur hækkað um 12% á milli mánaða, en Dohop sem gerir verðkönnunina gerir ráð fyrir að flugverð lækki á ný þegar vorið nálgast.

Er það miðað við að sama þróun verði og hefur verið síðustu tvö ár samkvæmt fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Þrátt fyrir þessa hækkun er meðalverð á flugi frá Íslandi um þriðjungi lægra en það var á sama tíma í fyrra og er meðalverðið frá Keflavík nú 41.230 krónur. Það er þriðja lægsta meðalverð sem Dohop hefur mælt frá upphafi.

Mest verðhækkun m.a. til London

Ódýrast er að fljúga til Stokkhólms og Edinborgar en verðið hækkar mest til London og Dusseldorf, eða um rúm 40% til síðarnefndu áfangastaðanna tveggja.

,,Einu lækkanirnar á meðalverði eru til Helsinki og Stokkhólms, en meðalverð á flugi til Stokkhólms er nú um 26.000 krónur," segir í tilkynningunni.

Hins vegar má gera má ráð fyrir að meðalverð á flugi lækki á næstunni þegar fleiri flugfélög hefja vor- og sumaráætlunarflug til Keflavíkur á ný.

Í febrúar 2015 var meðalverð á flugi frá Keflavík um 61.668 krónur og í febrúar 2016 gat sá sem var að bóka flug frá Keflavík gert ráð fyrir að meðalverðið væri um 52.948 krónur.

Meðalverð á flugi nú, hins vegar, er um 41.230 krónur og er því um 33% lægra en það var fyrir tveimur árum.

Þó verð hækki á milli mánaða má gera ráð fyrir því að það lækki aftur á næstu vikum og fram á vorið, ef þróunin verður sú sama og hún hefur verið síðustu tvö ár."