Jakobsson Capital metur gengi Festi á 251,1 krónu á hlut og hækkar verðmatsgengi sitt úr 241,9 eftir uppgjör félagsins. Er verðmatið umtalsvert hærra en markaðsgengi félagsins en þegar þetta er skrifað nemur gengi bréfa félagsins 230 krónum á hlut í Kauphöllinni.

Við lokun markaða í gær stóð gengið þó í 240 krónum á hlut, en gengislækkanir hafa herjað á Kauphöllina í dag vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Afkoma Festi árið 2021 var umfram væntingar Jakobsson Capital. Meginástæða betri rekstrarafkomu var að rekstrarkostnaður reyndist vera umtalsvert lægri en ráð var fyrir gert. Framlegðarhlutfall var hins vegar aðeins undir væntingum á öllum sviðum nema raftækjasviði.

Í greiningu Jakobsson Capital segir að félagið geri sína eigin rekstraráætlun fyrir hvert fyrirtæki á Aðalmarkaði en hafi rekstraráætlun hvers þeirra til hliðsjónar. Í þetta skipti sé rekstraráætlun Jakobsson Capital örlítið bjartari en rekstraráætlun Festar. Festi geri ráð fyrir 9 til 9,4 milljarða króna EBITDA í ár en Jakobsson Capital gerir ráð fyrir rétt rúmlega 9,4 milljarða króna EBITDA. Er þó tekið fram að rekstraráætlun Jakobsson sé unnin á raungrunni og spáin hljóði því uppá vel rúmlega 9,7 milljarða króna EBITDA á nafngrunni.