Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hvetur næstu ríkisstjórn til að draga úr ríkisútgjöldum og hætta hallarekstri. „Það mun koma í bakið á okkur ef ríkissjóður heldur áfram að eyða á sama tíma og atvinnulífið er að sækja í sig veðrið og nýir sprotar eru að skjóta upp kollinum. Þá er okkur í Seðlabankanum nauðugur sá kostur að hækka vexti til þess að hægja á einkageiranum,“ segir Ásgeir í viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála sem kom út í dag. Þar ræddi hann ýmis málefni á borð við stöðu efnahagsmála, verðtryggingu, menntamálin, Sundabrautina ásamt ummæli sín um hagsmunahópa í vor.

Ásgeir segir að mögulega munum við sjá ákveðin jákvæð langtímaáhrif af faraldrinum og nefnir þar að ferðaþjónustan hafi verið of fyrirferðamikil í íslenska hagkerfinu og valdið hækkun á raungengi krónunnar sem hafi grafið undan öðrum útflutningsgreinum.

„Við höfum nú tækifæri til að endurhugsa ferðaþjónustuna og leggja áherslu á virðisauka í stað vaxtar. Þessir erfiðleikar munu óefað leiða til hagræðingar og endurskipulagningar innan greinarinnar sem mun skila sér með góðum rekstrartölum á næstu árum. Ég sé því ekki endilega fyrir mér að innlendir aðilar muni fjárfesta mikið meira í ferðaþjónustu,“ segir Ásgeir og bætir við að nú sé að skapast sóknarfæri í örðum greinum.

Markaður stjórnaður af lífeyrissjóðum mjög leiðinlegur

Seðlabankastjórinn telur að almennt hafi tekist vel til að mæta áhrifum farsóttarinnar hér á landi og tiltrú á kerfinu því styrkst í heild sinni. Fjárfestar treysti krónunni betur, traust til Seðlabankans hafi aukist og meiri trúverðugleiki ríkir yfir ríkisfjármálastefnunni. Þá sé jákvætt hversu mikil þátttaka almennings hafi aukist.

„Vonandi munum við áfram sjá líflegan markað með breiðri þátttöku fjárfesta. Markaður sem eingöngu er stjórnað af lífeyrissjóðum sem vilja helst kaupa og halda er mjög leiðinlegur. Markaðsviðskipti eru í eðli sínu skoðanaskipti og markaðir virka best ef margar ólíkar skoðanir koma fram hjá ólíkum tegundum fjárfesta.“

Hefur áhyggjur af menntamálunum

Ásgeir, sem var deildarforseti hagfræðideildar HÍ áður en hann tók við sem seðlabankastjóri, segist hafa nokkrar áhyggjur af menntamálunum. Hann nefnir þá sérstaklega verk- og tæknimenntun vegna áherslunnar á bóknám.

„Við erum að sjá of mikið af ungu fólki fara á mis við menntun, meira en þekkist í öðrum Norðurlandaríkjum. Þetta á sérstaklega við um unga karlmenn. Það er ákveðin tímasprengja og mun valda ekki bara þeim, heldur okkur öllum, vandamálum í framtíðinni,“ segir Ásgeir og bætir við að of mikil áhersla á bóknám skapa vanda fyrir atvinnulífið vegna skorts á tæknimenntuðu fólki.

Hann telur þó að háskólarnir hér séu að mörgu leyti mjög góðir. Margir seðlabankar hafa að hans sögn hvatt ríkissjóði til fjárfestinga í innviða, þar á meðal menntainnviða, sem skili sér síðar meir. Lykilatriði sé að halda unga fólkinu á landinu en þá muni stórkostlegir hlutir gerast í atvinnulífinu.

„Við eigum þó eftir að sjá frekari breytingar á vinnumarkaði – vinnuævin er að lengjast og verða fjölbreyttari. Þau sem nú eru að koma á vinnumarkaðinn ættu mögulega að gera ráð fyrir því að eiga tvo til þrjá starfsferla um ævina. Það að setja fólk á eftirlaun eins snemma eins og nú þekkist er algjör sóun. Gamla 95 ára reglan og lágur eftirlaunaaldur er þvæla. Það á frekar að styðja við fólk þannig að það geti eignast annan starfsferil. Við getum tekið kennara sem dæmi. Kennsla er mjög erfið og slítandi starf og það eru líkur á því að fólk vilji gera eitthvað annað eftir 20 ár í kennslustofu. Við eigum að hjálpa því fólki að finna sér eitthvað annað að gera. Þetta er að breytast jafnt og þétt og sú þróun heldur áfram.“

„Sundabrautin er svo augljós framkvæmd“

Athygli vakti þegar Ásgeir sagði á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í fyrra að honum þætti stórundarlegt og jafnvel ámælisvert að ekki hafi verið ráðist í framkvæmdir við Sundabrautina. Hann ítrekar þessa skoðun sína og telur Sundabrautina vera „svo augljósa framkvæmd“ sem feli í sér mikið hagræði.

„Þetta er græn framkvæmd sem mun spara útblástur, minnka ferðatíma og umferðarálag og það kemur mér á óvart að fólk sé neikvætt út í svo mikilvæga samgöngubót,“ segir Ásgeir.

Beygir sig ekki undir pólitískan þrýsting

Ummæli Ásgeirs í viðtali við Stundina í apríl síðastliðnum olli einnig fjaðrafoki en þar var haft eftir honum að Ísland væri að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum og það sé meiri háttar mál að lenda uppi á kant við þá.

Spurður út í þessi ummæli, segir Ásgeir að ekki hafi mátt skilja orð hans þannig að hann væri að vorkenna sjálfum sér. Starfsemi hagsmunahópa sé eðlilegur hluti af samfélaginu upp að vissu marki og staða þeirra í íslenskum stjórnmálum megi rekja langt aftur í tímann. Hann treystir sér vel til að takast á við þessa ólíku hagsmunahópa, eiga við þá samtal, finna sameiginlega hagsmuni og eftir tilvikum takast á við þá.

„Það er meiriháttar mál að lenda upp á kant við þá og ég veit að ég er að fara að gera það á einhverjum tímapunkti, hvort sem það eru öflugir fjármálamenn, atvinnugreinar eða verkalýðshreyfingin, sem eru allt hagsmunahópar sem hafa mikil áhrif,“ segir Ásgeir. „Hvað sem því líður er ég ekki að fara að beygja mig undir pólitískan þrýsting eða aðra hagsmunahópa.“