Hlutafé í Arctic Fish ehf. var hækkað um tæplega 3,6 milljarða króna undir lok síðasta árs. Hækkunin fór fram með því að víkjandi lánum var breytt í hlutafé með útgáfu nýrra hluta. Um var að ræða 1,8 milljarða króna kröfu Norway Royal Salmon (NRS), áþekka kröfu kýpverska félagsins Friendmall Ltd. og 90 milljóna króna lán Novo ehf. Þetta kemur fram í tilkynningu til fyrirtækjaskrár Skattsins.

Eftir hækkunina nemur hlutafé félagsins 9,4 milljörðum króna. Félagið hyggur á næstunni á skráningu á Euronext Growth markaðinn í Noregi. NRS á fyrir helmingshlut í félaginu og hefur ekki í hyggju að selja nein bréf í tengslum við skráninguna og mun mögulega eignast meira en helming. Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hefur hafið kynningar fyrir valda fjárfesta í aðdraganda skráningarinnar. Félagið framleiddi 7.400 tonn af laxi á síðasta ári en stefnt er á að framleiðslan verði 24.000 tonn árið 2025.

Uppfært: Ranglega farið með tölur um framleiðslu félagsins á laxi og hefur fréttin því verið lagfærð. Lesendur eru beðnir afsökunar á mistökunum.