Laun forstöðumanna ríkisstofnana hækkuðu um 6,3% þann 1. apríl síðastliðinn. Rökstuðningur fyrir ákvörðuninni var ekki gerður opinber líkt og lagaákvæði kveða á um. Röðun í launaflokka er óbreytt og aðeins um hækkun á flokkunum að ræða. Breytingin hækkar launakostnað ríkisins um ríflega 120 milljónir króna á ári.

Ný launatafla fyrir forstöðumenn ríkisstofnana tók gildi í byrjun árs 2019 og voru áhrif hennar mismunandi. Um tveir af hverjum þremur stjórnendum hækkuðu í launum, þar af voru 23 embætti sem fengu tíu prósent hækkun eða meira, en um þriðjungur lækkaði í launum.

Hluti þeirra sem fékk hækkunina í fyrra hafði fengið nokkra hækkun með síðustu ákvörðun kjararáðs í júlí 2018. Forstöðumönnum gafst kostur á að gera athugasemdir við matið og leiddi það til þess að fimmtán hækkuðu í launum síðasta haust. Sú hækkun nam sjö til níu prósentum.

Sjá einnig: Fimmtán forstjórar ríkisins hækka í launum

Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er nú kveðið á um það hvernig staðið skal að kjarabreytingum forstöðumanna stofnanna. Er þar meðal annars kveðið á um að eigi sjaldnar en árlega skuli meta hvort tilefni sé til þess að endurmeta fjárhæðir til samræmis við launaþróun. Ekki er hins vegar kveðið á um það með jafn afdráttarlausum hætti hvaða meðaltal skuli miðað við.

Fengu ekki að hiksta

„Við byrjum á að vekja athygli fjármálaráðherrans með bréfi í janúar um að árlegt endurmat launa forstöðumanna skuli fara fram skv. 39. gr. a. starfsmannalaga og það var lítið um viðbrögð. Við fylgdum því eftir í mars og það var orðinn ansi mikill þrýstingur og hiti í umræðunni. [...] Það lá í loftinu að það ætti að frysta þetta, ráðuneytisstjórar og alþingismenn fengu frystingu. En það er mikilvægt að þetta fari fram svo hækkun miðað við launaþróun verði ekki of mikil til að hægt sé að framkvæma þetta,“ sagði Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár Íslands og formaður FFR, á aðalfundi FFR sem fór fram 19. maí síðastliðinn. Upptaka af fundinum er aðgengileg á YouTube og vef FFR.

„Tókuð þið eftir einu? Fenguð launahækkun og fenguð ekki að hiksta. Þetta virkar. Það voru ekki fjölmiðlaupphrópanir og það var heldur enginn að skamma ykkur í desember þegar þið fenguð desemberuppbót. Það hefur alltaf verið. Þið sluppuð við það líka. Það er bara fínt að vera laus undan þessu argaþrasi. Nú erum við komin á stað sem við höfum traust og trú á að virki og sé til þess fallið að mæta forstöðumönnum í kröfuhörðum aðstæðum og sé aðlaðandi. Við vitum að það er ekki fullkomið en í grundvallaratriðum virkar það,“ sagði Sverrir Jónsson, skrifstofustjóri kjara- og mannauðssýslu ríkisins, meðal annars á aðalfundi FFR þar sem hann hélt erindi að beiðni félagsins.

Rökstuðningur ekki birtur

Samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna skal ákvörðun um breytingu á launum rökstudd og birt opinberlega. Þrátt fyrir að um tveir mánuðir séu frá því að hún var tekin bólar ekki á rökstuðningnum. Uppfærða launatöflu er hins vegar að finna á vef Stjórnarráðsins. Rökstuðningurinn er ekki það eina sem ekki hefur verið birt því samkvæmt sömu lögum ber að birta upplýsingar um laun framkvæmdastjóra fyrirtækja í eigu hins opinbera á sama stað. Viðskiptablaðið óskaði í febrúar eftir upplýsingum um þróun launa framkvæmdastjóra ríkisins en svar hefur ekki borist.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .