Laun forstöðumanna ríkisstofnanna hækkuðu um 1,6% þann 1. júlí síðastliðinn en þau tóku síðast breytingum síðustu áramót. Þá hækkuðu þau um 3,4%. Frá því að kjararáð var lagt niður hafa laun forstöðumannanna hækkað um tæplega 12%. Á sama tíma hafa laun embættismanna, sem þiggja laun samkvæmt lögákveðinni tölu, hækkað um 9,8% en launavísitala hækkað um 17,35%. Þetta er meðal þess sem lesa má úr yfirliti fjármálaráðuneytisins um dreifingu starfanna í launaflokka.

Sem alkunna er var kjararáð lagt niður með lögum sumarið 2018. Launaákvörðunarvald yfir forstjórum ríkisfyrirtækja færðist þá almennt til stjórna þeirra félaga og forstöðumanna ríkisstofnana almennt undir skrifstofu kjara og mannauðs (KMR) innan fjármálaráðuneytisins. Þjóðkjörnir fulltrúar fá aftur á móti greitt samkvæmt lögákveðinni tölu. Hið sama gildir um störf sem eðlis síns vegna verða að vera algjörlega sjálfstæð öðrum öngum ríkisvaldsins. Í þann flokk falla meðal annars dómarar, saksóknarar, seðlabankastjóri og ríkissáttasemjari.

Í tilfelli lögákveðnu launanna er kveðið á um að þau skuli taka breytingum 1. júlí ár hvert í samræmi við breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Laun forstöðumanna ber aftur á móti að endurmeta eigi sjaldnar en árlega „til samræmis við sameiginlega launastefnu á vinnumarkaði eða önnur viðmið sem lýsa almennri launaþróun á vinnumarkaði“. Ákvarðanir um breytingar á kjörum forstöðumanna ber að rökstyðja og birta opinberlega en enn sem komið er hefur það ekki verið gert. Með þessum breytingum var stefnt að því að koma í veg fyrir hin stóru stökk sem einkennt höfðu ákvarðanir kjararáðs.

Hið nýja launafyrirkomulag tók gildi í byrjun árs 2019, en þá voru störf forstöðumanna endurmetin. Meðal þess sem litið var til við matið var færni og fagleg þekking sem þarf í embættið, nýsköpun og frumkvæði, stjórnun stofnunar sem og ábyrgð og umfang. Leiddi það mat til þess að um tveir þriðju forstöðumanna hækkuðu í launum en þriðjungur lækkaði. Í tilfelli þeirra sem lækkun fengu voru eldri kjör, það er þau sem kjararáð ákvað, fryst og breytast laun þeirra því ekki fyrr en þau eru komin yfir fyrri kjör á nýjan leik.

Einn hækkaður um flokk

Viðskiptablaðið óskaði á vormánuðum þessa árs eftir matsskjölum sem lágu að baki mati á störfum einstakra forstöðumanna. Þau skjöl fengust afhent um mitt sumar. Þar má finna almenna lýsingu á hverjum matsþætti fyrir sig og hvar í matstöflunni hvert starf raðast. Aftur á móti er vissum erfiðleikum háð að átta sig á því hví viðkomandi starf fær einkunnina III hér meðan annar fær IV og sá þriðji III.

Forstöðumenn stofnana geta óskað eftir endurmati á mati KMR á störfum sínum og hafa nokkrir gert það frá því að fyrirkomulaginu var komið á laggirnar. Haustið 2019 voru til að mynda fimmtán embættismenn færðir upp um launaflokk í kjölfar endurmats. Þær ákvarðanir voru ekki birtar opinberlega frekar en aðrar. Við breytinguna nú í sumar var aðeins eitt starf, það er framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs, hækkað um launaflokk.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .