Fjárlagafrumvarp fyrir 2019 hefur verið kynnt, líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun þá mun afgangurinn af fjárlögum nema 29 milljörðum króna. Því lækkar afgangur af rekstri ríkissjóðs um 3 milljarða króna milli ára en gert var ráð fyrir 33 milljarða króna afgangi af rekstri í fjárlögum þessa árs.

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, segir að hann hefði viljað sjá aðgerðir um lækkun bankaskatts auk frekari lækkun tryggingargjalds, en fjárlögin gera ráð fyrir að tryggingagjaldið lækki um 0,25 prósentustig í byrjun næsta árs og aftur um 0,25 prósentustig í byrjun árs 2020.

„Lækkun tryggingargjalds skiptir miklu máli fyrir fyrirtækin, sérstaklega þau sem treysta á hugvit, og slíkar aðgerðir gætu liðkað fyrir kjaraviðræðum,“ segir hann.

Afgangurinn mætti vera meiri

Gert er ráð fyrir að afgangur af rekstri ríkissjóðs verði jákvæður um 1% af landsframleiðslu árið 2019 en til samanburðar er gert ráð fyrir 1,2% afgangi af fjárlögum þessa árs.

„Ég hefði viljað sjá meiri afgang nú sérstaklega eftir langan uppgangstíma til þess að viðhalda stöðugleika og festu. Miðað við að ríkið þurfi að hafa vaðið fyrir neðan sig til að komast hjá því að fara í niðurskurðaraðgerðir ef í harðbaggan slær,“ segir Konráð og bætir við að lítið þurfi út af að bregða til að þess gerist þörf.

Aukið framboð í stað bóta

Á næsta ári er gert ráð fyrir að stuðningur vegna húsnæðis aukist um ríflega 900 miljónir króna. Þá verður stuðningurinn alls um 25,4 milljarðar króna en hann er veittur eftir nokkrum ólíkum leiðum, svo sem í formi húsnæðisbóta, stofnframlaga til byggingar almennra íbúða og vaxtabóta.

Einnig er húsnæðisstuðningur veittur með skattastyrkjum vegna almenns séreignarsparnaðarúrræðis og stuðnings til fyrstu kaupa, auk undanþágu leigutekna frá skatti, afsláttar á stimpilgjöldum vegna fyrstu kaupa og endurgreiðslu á virðisaukaskatti til byggjenda vegna sölu og leigu íbúðarhúsnæðis.

Spurður um álit sitt á þessum aðgerðum segir Konráð að ríkið ætti frekar að auka framboð af húsnæði í stað þess að hækka bætur.

„Ef á annað borð er verið að veita húsnæðisstuðning þá ætti hann að snúa í enn meiri mæli að framboðshliðinni og byggingu húsnæðis. Við erum búin að sjá það að víða í útlöndum hefur áherslan verið á að styrkja eftirspurnarhliðna og niðurstaðan af því er ekki góð. Það leysir ekki vandann að hækka bætur, íbúðum fjölgar ekkert við það að.“

Hann bætir við að hann telji betra að lækka skatta á almenning í landinu frekar en að eyrnarmerkja pening frá ríkinu í húsnæðisstuðning, það muni aðeins leiða til þess að húsnæði verði dýrara.

Lækkun skulda jákvæð

Heildarskuldir ríkissjóðs hafa lækkað um 658 milljarða króna á sex árum og hlutfall þeirra af landsframleiðslu lækkað úr 86%, þegar það var hæst árið 2011, í 31% í lok þessa árs. Frá miðju ári 2017 til miðs árs 2018 lækkuðu skuldir ríkissjóðs um 88 ma.kr. en það samsvarar því að skuldir hafi lækkað um 10 milljónir á klukkustund.

Konráð segir lækkun skulda ríkissjóðs vera afar jákvæða en segir þó mikilvægt að ríkið stígi varlega til jarðar í útgjaldaaukningunni.

„Þó verður að halda því til haga að lækkun skulda er í rauninni hlutfallsleg og að miklu leyti dregin áfram af aukinni landsframleiðslu, sem er jákvætt, þýðir að ríkið er í stakk búið til að bregðast við þegar niðursveiflan kemur,“ segir hann og bætir við að hann telji að ekki sé innistæða fyrir þessari miklu útgjaldaaukiningu og mikilvægt sé að halda aftur að þenslu.