Hækkun eldsneytisverðs á síðustu vikum hefur neikvæð áhrif á rekstur Icelandair Group og annarra flugfélaga. Flugvélaeldsneyti hefur hækkað um þriðjung frá áramótum og meðalverð það sem af er ári er ríflega 35% hærra en það var árið 2010. Þar af var meðalverð á fyrsta ársfjórðungi 2011 23% hærra en á fjórða ársfjórðungi 2010.

Þetta kemur fram í Morgunpósti IFS Greiningar í dag. Þar segir ennfremur að á afkomufundi Icelandair í febrúar hafi komið fram að 10% hækkun eldsneytisverðs hefði 11,4 milljóna dala áhrif á rekstrarhagnað fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA). Það er um 1,3 milljarðar króna.

Þá var Icelandair fremur lítið varið fyrir verðhækkunum en varnir fóru að hafa einhver áhrif þegar eldsneytisverð fór yfir 975 dollara á tonn, segir í Morgunpósti. Nú stendur tonnið í 1.108 dollurum.

IFS segir að um fimmtungur af rekstrarkostnaði Icelandair í fyrra hafi verið vegna eldsneytis.