Veruleg hækkun á fasteignaverði leiddi til þess að verðbólga er meiri nú er greiningaraðilar höfðu reiknað með. Vísitalan hækkaði um 0,36% á milli mánaða í nóvember og fór verðbólga úr 3,6% í 3,7%. Væntingar voru um að verðbólga myndi standa í stað eða lækkað um 0,1 prósentustig. Greining Íslandsbanka gerir engu að síður ráð fyrir því að draga muni úr verðbólgu fram undir næsta vor. Niðurstaða kjarasamninga mun ráða miklu um það hvort spáin gangi eftir.

Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni sínu í dag að húsnæðisliðurinn í heild hafi hækkað um 0,8% á milli október og nóvember. Þar af hafi reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar að mestu þróun markaðsverðs íbúðarhúsnæðis, um 1,4% á milli mánaða. Mest er hækkunin á íbúðaverði milli mánaða utan höfuðborgarsvæðisins eða upp á 2,5%. Þá hækkaði verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu um 1,9% en verð á sérbýli á höfuðborgarsvæði stendur í stað milli mánaða.

Á sama tíma hækkaði matvöruverð lítið sem ekkert og ferðir og flutningar hækkuðu um 0,1% á milli mánaða. Þar vógust á annars vegar 4,8% hækkun á flugfargjöldum til útlanda og hins vegar 1,1% lækkun á eldsneytisverði.