*

laugardagur, 12. júní 2021
Innlent 16. maí 2018 16:57

Hækkun Haga var meira en 7%

Hálfs milljarðs króna viðskipti voru með bréf Haga, en einungis tvö félög lækkuðu í kauphöllinni í dag.

Ritstjórn
Kauphöll Nasdaq á Íslandi er til húsa efst á Laugarvegi.
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 0,94% og fór hún upp í 1.748,05 stig. Aðalsvísitala kauphallarinnar, sem inniheldur öll félög hækkaði um 0,88%, og fór hún í 666,16, en heildarviðskiptin í kauphöllinni námu um 2,3 milljarða viðskiptum.

Skuldabréfavísitala Gamma lækkaði um 0,03% í tæplega 3 milljarða viðskiptum og fór hún í 346,659 stig. Heildarmarkaðsvísitala Gamma hækkaði um 0,22% í 5,8 milljarða viðskiptum og fór hún í 165,861 stig.

Langmest hækkun hjá Högum

Hagar hækkuðu langmest í viðskiptum dagsins, eða um 7,17% í 507 milljón króna viðskiptum og er gengi bréfanna nú 42,60 krónur. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær hagnaðist félagið um 2,4 milljarða á síðasta rekstrarári, sem nær til 28. febrúar 2018. Fram kom í fréttum fyrr í dag að bréf félagsins hafa hækkað skart í dag þrátt fyrir að hagnaðurinn hafi lækkað um 41% frá fyrra ári.

Einnig hækkuðu bæði Skeljungur og Icelandair vel, eða um 2,62% og 2,61%. Námu viðskiptin með fyrra félagið 70 milljónum og fór það í 6,67 krónur, en viðskiptin með það síðarnefnda námu 215 milljónum og var lokagengi þess 12,57 krónur.

Fasteignafélög lækkuðu

Einungis tvö félög lækkuðu í virði í kauphöllinni í dag, það eru fasteignafélögin Reginn sem lækkaði um 0,41% í 52 milljóna viðskiptum og Eik sem lækkaði um 0,10% í 25 milljóna viðskiptum. Fór gengi bréfa Eikar í 9,89 krónur og Regins í 24,05 krónur.

Mestu viðskiptin á skuldabréfamarkaði voru með RB20 0205, en það var fyrir rúman milljarð króna, og lækkaði verð bréfanna um 0,03%. Ávöxtunarkrafa bréfanna stendur nú í 4,91%.

Á gjaldeyrismarkaði veiktist krónan um 0,91% gagnvart Bandaríkjadal, sem nú er á 104,53 krónur. Evran styrktist um 0,33% og er pundið nú á 123,20 krónur og Breska sterlingspundið styrktist um 0,67% og er á 140,88 krónur.

Stikkorð: Hagar Gamma Nasdaq markaður kauphöll