Hækkun var á helstu vísitölum í Bandaríkjunum í gær. Hækkunin var mörgum léttir eftir lækkanir síðustu viku og hafði S&P 500 vísitalan til dæmis ekki hækkað í sex daga.

Hækkunin var hvað mest í hlutabréfum tækni- og tölvufyrirtækja, þó þess hafi ekki orðið vart í viðskiptum með hluti í Facebook. Hlutabréfaverð Apple hækkaði til að mynda um 5,8% sem leiddi hækkun Nasdaq vísitölunnar. Sú hefur ekki hækkað meira á einum degi síðan í desember á síðasta ári. Þetta kemur fram á vef fréttaveitunnar Reuters.

Dow Jones vísitalan (DJI) hækkaði um 1,09%, Standard & Poor´s vísitalan (SPX) um 1,60% og Nasdaq (IXIC) um 2,46%.

Yfirlýsing G8 leiðtoga um stuðning við að Grikkir haldi áfram í evru-samstarfinu er talin hafa haft jákvæð áhrif. Að auki lýstu Kínverjar um helgina yfir vilja til að stuðla að hagvexti og umbótum á næstunni sem þótt hefur gefa merki um vilja þeirra til að taka þátt í þeim umbótum sem leiðtogar helstu landa heims vinna nú að.