Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,07% í maí og verðbólga mældist 2,4%. Verðbólgan er því enn undir verðbólgumarkmiði seðlabankans. Samkvæmt greiningu Íslandsbanka er hækkun á íbúðaverði helsta orsök verðbólgu um þessar mundir.

Húsnæðisliður Vísitölu neysluverðs hækkaði um tæp 0,5% í maí. Þar af hækkaði reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar vel markaðsverð íbúðarhúsnæðis, um 0,9%. Húsnæðisliðurinn stendur á bak við rúmlega helming verðbólgu um þessar mundir. Ef húsnæðisverð er ekki tekið með í reikninginn mælist 12 mánaða verðbólga einungis 1,1% um þessar mundir.

Samkvæmt greiningunni hefur markaðsverð húsnæðis hækkað um 9,7% undanfarna 12 mánuði. Verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað mest, eða um tæp 12%. Hækkun sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu nam tæpum 8% og þá hefur húsnæðisverð á landsbyggðinni hækkað um tæp 5% undanfarna 12 mánuði.