*

föstudagur, 7. ágúst 2020
Innlent 4. desember 2019 16:22

Hækkun Icelandair endaði í 2,30%

Icelandair og Eimskip hækkuðu um nærri því jafnmikið í kauphöllinni í dag. Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,17%.

Ritstjórn

Úrvalsvístala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 1,17%, í 2.115,42 stig, í samtals 2,5 milljarða króna viðskiptum á aðallista hlutafélaga í kauphöllinni í dag.

Mest hækkun var á gengi bréfa Icelandair, eða um 2,30%, í 8,0 krónur, sem er nokkru minni hækkun en Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í dag, þegar gengið fór um tíma í 8,06 krónur. Heildarviðskiptin námu 212 milljónum króna. Littlu minni var hækkun á gengi bréfa Eimskipafélagsins, eða um 2,29% í 128 milljóna króna viðskiptum, og fór gengið í 179,0 krónur.

Loks hækkaði gengi bréfa Haga um 1,92%, í 45,15 krónur, í 454 milljóna króna viðskiptum, sem jafnframt voru þau næst mestu í kauphöllinni í dag. Mestu viðskiptin, eða fyrir 473 milljónir króna, voru hins vegar með bréf marel, sem hækkuðu um 1,68%, í 606,00 krónur.

Mest lækkun var á gengi bréfa Kviku banka, eða um 1,58%, niður í 9,94 krónur, í 128 milljóna króna viðskiptum. Næst mesta lækkunin var á gengi bréfa Skeljungs, eða um 1,13%, í þó ekki nema milljón króna viðskiptum og var lokagengi bréfanna 8,32 krónur.

Þriðja mesta lækkunin var svo á gengi bréfa Origo, um 1,09%, í 27,15 krónu, einnig í litlum viðskiptum eða fyrir 27 milljónir króna.

Pundið komið í nærri 159 krónur

Gengi krónunnar veiktist gagnvart breska pundinu og Norðurlandakrónunum en styrktist gagnvart Bandaríkjadal, japanska jeninu og svissneska frankanum.

Gengið stóð hins vegar í stað gagnvart evrunni, sem fæst nú á 134,16 krónur, meðan Bandaríkjadalurinn, sem veiktist um 0,08% gagnvart krónunni, fæst nú á 120,89 krónur. Pundið sem styrktist um 0,79%, fæst á 158,56 krónur.