*

þriðjudagur, 28. september 2021
Innlent 16. mars 2021 17:03

Hækkun Icelandair endaði í 6%

Eftir að gengi Icelandair hafði um tíma hækkað um ríflega 9% endaði hækkun bréfa félagsins í viðskiptum dagsins í 6%.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Eftir rauðan gærdag var grænna yfir Aðalmarkaði Kauphallar Nasdaq á Íslandi. Gengi fjórtán félaga af þeim nítján sem skráð eru á markað hækkaði í viðskiptum dagsins og fyrir vikið hækkaði gengi OMXI10 úrvalsvísitölunnar um 0,73% og stendur í kjölfarið í 2.843,83 stigum. 

Hækkun hlutabréfa Icelandair endaði í 5,99%, en á tímabili í dag hafði gengi bréfa félagsins hækkað um ríflega 9%. Heildarvelta viðskipta með bréf Icelandair nam 166 milljónum króna.

Fréttir sem bárust um að vottorð um bólusetningu gegn COVID-19 og vottorð um fyrri covid sýkingu verði tekin gild á landamærum Íslands, hvort sem þau eru upprunnin innan EES svæðisins eða utan þess, að því tilskyldu að þau uppfylli sömu kröfur og leiðbeiningar sóttvarnarlæknis, virðast hafa ýtt undir hækkun á gengi hlutabréfa flugfélagsins.

Gengi einungis fjögurra félaga, Haga, Sjóvá, TM og VÍS lækkaði í viðskiptum dagsins og í öllum tilfellum var um að ræða innan við 1% lækkun.

Stikkorð: Kauphöll Icelandair Nasdaq