Gengi hlutabréfa Icelandair hélt áfram að hækka í viðskiptum dagsins í Kauphöll Nasdaq á Íslandi og nam hækkun bréfanna 14,55% í 483 milljóna króna veltu. Fréttir þess efnis að þróun bóluefnis gegn kórónuveirunni væri vel á veg komin höfðu jákvæð áhrif á gengi bréfa flugfélagsins í gær og hélt sú þróun áfram í dag. Nú að viðskiptadegi nýloknum stendur gengi bréfa félagsins í 1,26 krónum á hlut, en í nýlegu hlutafjárútboði nam útboðsgengið 1 krónu á hvern hlut.

Gengi fasteignafélaganna Reita og Eikar hækkaði næst mest í viðskiptum dagsins. Gengi hlutabréfa Reita hækkaði um 8,46% í 352 milljóna króna veltu og gengi Eikar hækkaði um 5,39% í 245 milljóna króna veltu.

Heildarvelta viðskipta dagsins nam 3,8 milljörðum króna og þrátt fyrir ofangreindar hækkanir lækkaði gengi OMXI10 úrvalsvísitölunnar um 0,73% og stendur nú í 2.334,18 stigum. Ætla má að þessi lækkun vísitölunnar sé tilkomin vegna 2,16% lækkunnar á gengi hlutabréfa Marels, en félagið skipar veigamikinn sess í vísitölunni.