Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 0,31% í 1,4 milljarða veltu, og stendur nú í 1.855,70 stigum eftir viðskipti dagsins. Hefur hún ekki verið hærri síðan í lok maí 2017, en hún rauf 1.800 stiga múrinn 22. febrúar síðastliðinn.

Mest hækkun var á gengi bréfa Icelandair, eða 6,35% í 104 milljóna króna viðskiptum og fóru bréfin upp í 8,88 krónur. Næst mest hækkun var svo á gengi bréfa Arion banka, eða 0,97% í 292 milljóna viðskiptum og standa bréfin nú í 73,00 krónum.

Mestu viðskiptin voru eins og oftast áður með bréf Marel, eða fyrir 491 milljón krónur, en bréfin hækkuðu um 0,40%, upp í 497,00 krónur.

Mest lækkun var á gengi bréfa Reginn fasteignafélags, eða um 1,59% í 43 milljóna viðskiptum, er gengið nú 21,65 krónur. Næst mest lækkun var svo í gengi bréfa Festi eða um 0,93% í 26 milljóna viðskiptum, þar sem bréfin fóru í 106,50 krónur.