Gengi bréfa Icelandair hækkaði um 7,17%, í um 720 milljóna króna viðskiptum í kauphöllinni í dag, er það mesta hækkunin á gengi eins bréfs í dag og þriðju mestu viðskiptin með bréf í einu félagi.

Fór lokagengi flugfélagsins í 8,82 krónur, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær tapaði félagið 7 milljörðum króna á síðasta ári. Félagið tapaði tæplega einum milljarði af rekstri flugfélags á Grænhöfðaeyjum sem það fjárfesti í á síðasta ári. Jafnframt hefur afkoman af hótelrekstri félagsins rýrnað .

Heildarviðskiptin í dag námu 3,7 milljörðum og hækkaði Úrvalsvísitalan um 0,75%, í 2.117,86 stig í viðskiptum dagsins. Nest mest hækkun, og önnur mestu viðskiptin, voru með bréf TM, eða um 4,03%, upp í 36,10 krónur, í 1.042 milljóna króna viðskiptum.

Mestu viðskiptin voru litlu meiri, eða fyrir 1.063 milljónir króna, með bréf Marel, sem hækkuðu um 1,53%, í 596,0 krónur, en það er jafnframt þriðja mesta hækkuni í dag. Mest lækkun var hins vegar á gengi bréfa Arion banka, eða um 0,96%, niður í 82,70 krónur, í 134 milljóna króna viðskiptum.

Gengi bréfa Eimskipafélags Íslands lækkaði næst mest, eða um 0,59%, niður í 168,50 krónur, í mjög litlum viðskiptum þó eða fyrir 1 milljón krónur. Þriðja mesta lækkunin var á bréfum Símans, í töluvert meiri viðskiptum eða fyrir 91 milljón krónur, en gengi bréfanna lækkaði um 0,55%, og lokaði vikunni í 5,39 krónum.

Pundið á yfir 162 krónur viku eftir útgöngu úr ESB

Íslenska krónan styrktist í dag gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum, nema japanska jeninu sem styrktist um 0,18% gagnvart krónu og fæst nú á 1,1422 krónur.

Evran lækkaði um 0,29% gagnvart krónu, niður í 137,25 krónur, Bandaríkjadalur lækkaði um 0,11%, niður í 125,23 krónur og breska pundið lækkaði um 0,06%, og fæst nú á 162,05 krónur í lok fyrstu viðskiptavikunnar síðan Bretland gekk út úr Evrópusambandinu.