Í nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar segir að stefnt verði að því að halda áfram að draga úr álögum, gera skattheimtu sanngjarnari og það sé í forgangi að lækka tryggingargjald. Það sé þó háð framvindu á vinnumarkaði, sem og að lækkun tekjuskatts verði látin taka mið af öðrum aðstæðum í hagkerfinu.

Þó mun fjármagnstekjuskattur hækka úr 20% í 22% en skattstofninn verður í framhaldi endurskoðaður með það fyrir augum að raunverulegur ávinningur af fjármagni verði skattlagður og um leið alþjóðlegur ávinningur gerður auðveldari.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá í morgun mun fjárlagafrumvarpið skila 9 milljörðum króna minni afgangi en frumvarp fyrri ríkisstjórnar, en verulega er lagt í aukin útgjöld í ýmsum málum frá fyrra ári. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti frumvarpið í morgun.

Olíugjald ekki hækkað og kolefnisgjald hækkað minna

Umhverfisvænar bifreiðar verða áfram undanþegnar virðisaukaskatti, en kolefnisgjald verður hækkað um 50%, en ekki 100% líkt og gert hafði verið ráð fyrir í fjármálaáætlun fyrir 2018 til 2022.

Síðan mun gjaldið hækka á næstu árum í takt við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, en fallið verður frá áformum fyrra fjárlagafrumvarps fyrir árið um tekjuöflun samhliða jöfnun olíugjaldsins. Jafnframt verður hægt á afnámi ívilnunar vörugjalds af bílaleigubílum.

Loks koma ýmsar aðrar skattbreytingar til skoðunar á fyrsta starfsári nýrrar ríkisstjórnar, svo sem lækkun virðisaukaskatts á íslenskt ritmál, tónlist og bækur, skattalegt umhverfi fjölmiðla og skattlagning höfundarréttargreiðslna.

Virðisaukaskattur skilar 181 milljarði

Í grófum dráttum skiptast tekjur ríkisins þannig að 241 milljarður króna kemur frá virðisaukaskatti, en tekjuskattur einstaklinga skilar 181 milljarði, tryggingagjöld 96 milljörðum, tekjuskattur lögaðila 77 milljörðum, fjármagnstekjuskattur 37 milljörðum og  eldsneytisgjöld 30 milljörðum.

Næstu liðir er svo áfengisgjald sem skilar 19 milljörðum og aðrir neysluskattar sem skila 14 milljörðum. Aðrir tekjuliðir eru allir undir 10 milljörðum, þar af 9 milljarðar frá bankaskatti og svo fara þeir stiglækkandi niður í 4 milljarða frá öðrum umhverfissköttum.