*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 20. febrúar 2020 07:26

Hækkun langt umfram lífskjarasamning

Kröfur Eflingar eru langt umfram lífskjarasamninginn að sögn Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra.

Ritstjórn
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Haraldur Guðjónsson

Kröfur Eflingar eru langt umfram lífskjarasamninginn sem var undirritaður á síðasta ári, að sögn Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra. Þá séu kröfurnar sömuleiðis umfram tilboð borgarinnar, sem sé að mati Dags mjög gott og til þess gert að tekjulægstu hóparnir geti á launum sínum lifað mannsæmandi lífi. Dagur greindi frá þessu í Kastljósi á RÚV í gærkvöldi og greinir Vísir frá þessu.

Grunnlaun ófaglærðra starfsmanna myndu hækka úr 310 þúsund krónum á mánuði í 420 þúsund krónur samkvæmt kjarasamningnum sem borgin hefur boðið, segir Dagur. Auk þess fæli boðið í sér 40 þúsund krónur ofan á grunnlaun vegna álagsgreiðslna.  

Dagur kveðst hafa reiknað með að samningagerðin myndi ganga hratt og vel fyrir sig, þar sem nýbúið sé að skrifa undir lífskjarasamninginn á almennum vinnumarkaði, sem nái til rúmlega hundrað þúsund launþega, og bæði ríki og sveitarfélög komu að.