Í fjármálaætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2021-2025, sem kynnt var í gær, er bent á að vísbendingar hafi birst um samdrátt í hagkerfinu nokkuð áður en heimsfaraldurinn skall á. Þá hafi rekstrarskilyrði fyrirtækja verið farin að versna. Launakostnaður, sér í lagi í ferðaþjónustu, hafi hækkað til muna. Launakostnaður í ferðaþjónustu sem hlutfall af tekjum hækkað úr um 18% árið 2013 í um 28% árið 2018.

Kaupmáttur launa jókst um 33% á árunum 2013–2019 en á sama tíma hafi samkeppnishæfni þjóðarbúsins versnað. „Þrátt fyrir að kjarasamningar á árinu 2019 hafi dregið verulega úr efnahagslegri óvissu fólu þeir engu að síður í sér enn frekari krefjandi launahækkanir fyrir stóran hluta atvinnulífsins,“ segir í fjármálaáætluninni.

Í áætluninni er birt mynd sem sögð er sýna með „sláandi“ hætti hve launakostnaður hafi hækkað mikið umfram framleiðniaukningu hér á landi miðað við nágrannalöndin. „Framleiðnivöxtur mældur í dollurum á vinnustund var til að mynda svipaður á Íslandi og í Danmörku undanfarinn áratug en hér jókst launakostnaður hátt í fjórfalt meira en þar á sama tímabili,“ segir í áætluninni.

© Aðsend mynd (AÐSEND)