Atvinna
Atvinna
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)
Sú hækkun sem hefur orðið í kjölfar kjarasamninga er ekki í takt við þær aðstæður sem eru á vinnumarkaði hér á landi, sem einkennist enn af töluverðu atvinnuleysi, auk þess sem fjárhagsleg staða og rekstrarumhverfi margra fyrirtækja er enn afar erfitt. Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka í dag sem fjallar um nýjar tölur Hagstofunnar um kaupmátt launa. Kaupmáttur jókst um 0,9% í júlí og hefur, að júní undanskildum, ekki aukist svo hratt síðan seint á árinu 2007.

Í Morgunkorni segir að það megi ætla að fyrirtæki neyðist til að velta stórum hluta aukins kostnaðar sem fylgir kjarasamningum út í verðlag, sem augljóslega leiði til meiri verðbólgu hér á landi en ella. „Er því nokkuð líklegt að sú jákvæða þróun sem orðið hefur á kaupmætti á síðustu mánuðum snúist upp í andhverfu sína á næstu mánuðum. Þó ræðst þróun verðlags hér á landi augljóslega af fleiri þáttum en framangreindu, og má hér einna helst nefna gengisþróun krónu, verðþróun á hrávörumörkuðum erlendis og þróun húsnæðisverðs.“