Frummælendur á fundi Félags atvinnurekenda um lífeyrismál í morgun voru sammála um að hækkun lífeyrisiðgjalds um 3,5 prósentustig á næstu árum væri ekki eingöngu jákvæð, heldur fælust einnig í henni ýmsar hættur. Þátttakendur í pallborðsumræðum voru á einu máli um að mikilvægt væri að aflétta höftum af erlendum fjárfestingum lífeyrissjóðanna, meðal annars til að mæta þessu mikla innstreymi fjár í sjóðina. Kemur þetta fram í umfjöllun um fundinn á vefsíðu félagsins.

Til hans var boðað til að ræða áhrif af hækkun framlags atvinnurekenda í lífeyrissjóði úr 8% í 11,5%, en um hana var samið í kjarasamningunum í janúar síðastliðnum. Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, sem var annar frummælenda á fundinum, sagði að þetta þýddi 35% meiri ávinning lífeyrisréttar en áður og þýddi líklega 10-12 milljarða aukið innstreymi í lífeyrissjóðina árlega. Hrein framlög til lífeyrissjóðakerfisins, þ.e. þegar búið væri að draga frá útgreiðslur úr sjóðunum, hækkuðu því úr 40-50 milljörðum árlega í 50-60 milljarða, eða um fjórðung.

Fátækt ungs fólks vegna hárra lífeyrisiðgjalda og jaðarskatta?

Ásgeir sagði að með skylduiðgjaldi væri í raun verið að taka ákvarðanir um sparnað fyrir fólk, sem gætu verið á skjön við hagkvæmustu neyslu yfir ævina. Útgjöld vegna barna og greiðslubyrði vegna húsnæðis væru að jafnaði þyngst hjá fólki á aldrinum 30-40 ára. Ef skylduiðgjaldið væri of hátt á þessum útgjaldafreka aldri gæti fólk þurft að bregðast við með lántökum til að viðhalda hagkvæmasta neyslustigi. Við bættist svo skattkerfi, sem refsaði ungu fólki á vinnumarkaði. Þegar stjórnmálamenn hækkuðu skatta á há laun væru þeir í raun ekki að refsa þeim ríku, sem oft hefðu litlar atvinnutekjur, og háir jaðarskattar bitnuðu fremur á ungu fólki sem ynni mikið til að reyna að hækka tekjur sínar. Á ákveðnu tekjubili gæti það verið svo að mikil vinna skilaði engu í vasann vegna samspils tekjuskatta og tekjutengdra bóta velferðarkerfisins, svo sem vaxta- og barnabóta. Sambland hárra jaðarskatta og hárra skylduiðgjalda gæti því leitt til minni lífsánægju, þar sem manndómsárin yrðu basl.

Ásgeir sagði að vegna lífeyriskerfisins og verðtryggingarinnar sem komið hefði verið á 1979 sæjum við brátt fram á endalok fátæktar hjá eldri borgurum, nú væru að koma fram kynslóðir eldri borgara með góða heilsu og talsverða fjármuni á milli handa. Spurningin væri hvort við sæjum á móti fátækt ungs fólks, sem fengi ekki að nota tekjur sínar til neyslu þegar mest þörf væri á. Ásgeir sagðist ekki hafa lausn á málinu en velta mætti upp þeirri spurningu hvort iðgjöld gætu verið með einhverjum hætti aldurstengd.