Af 1,8 milljarða króna veltu í kauphöll Nasdaq á Íslandi í dag var langmesta veltan með bréf Marel, eða fyrir 965,9 milljónir króna, sem er ríflega helmingur allrar veltunnar. Hækkuðu bréf félagsins um 1,14%, upp í 622 krónur, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum hefur lækkun gengis bréfanna frá því að kórónuveirufaraldurinn gekk yfir gengið öll til baka og rúmlega það nú.

Þannig hefur gengi bréfa félagsins hækkað um nærri 30% síðan það fór lægst í 480 krónur þann 18. mars síðastliðinn, ef horft er til síðan útbreiðsla kórónuveirufaraldursins hófst.

Næst mesta veltan var svo með bréf Símans, eða fyrir 363,4 milljónir króna, en gengi bréfa félagsins hækkaði jafnframt næst mest, eða um 2,01%, upp í 5,57 krónur. Hagnaður félagsins á fyrsta ársfjórðungi jókst um fjórðung þó tekjurnar jukust einungis um 4% , en félagið hefur séð mikla aukningu vegna aukinnar heimasetu fólks, þó enginn enskur bolti verði fyrr en í fyrsta lagi í maí.

Einungis bréf Skeljungs hækkuðu meira, eða um 2,07%, í þó ekki nema 36 milljóna króna veltu og nam lokagengi bréfa félagsins 7,40 krónum. Þriðja mesta hækkunin var svo á gengi Eimskipafélags Íslands, eða um 1,57%, upp í 129 krónur, en í mjög litlum viðskiptum eða fyrir 795 þúsund krónur. Viðskiptablaðið greindi frá uppsögnum á 73 manns hjá félaginu í morgun.

Mesta lækkunin var hins vegar á bréfum Reita, eða um 2,96%, niður í 52,40 krónur, í 36 milljóna króna viðskiptum, en næst mest lækkun var á gengi bréfa Vís eða um 1,46%, niður í 10,15 krónur.

Nærri fimmtungsveiking gagnvart evru

Krónan veiktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum í dag, mest gagnvart norsku og sænsku krónunni en þær styrktust báðar um 1,62% gagnvart þeirri íslensku. Fór sú fyrri í 14,829 króna kaupgengi, en sú síðarnefnda í 14,829 krónur.

Styrking evrunnar gagnvart krónunni nam 0,25% og fæst hún nú á 158,97 krónur. Viðskiptablaðið fjallaði um það í gær að eftir veikingu krónunnar þá hefur gengi hennar fallið um 17% gagnvart evrunni á þessu ári. Bandaríkjadalur styrktist um 0,15% gagnvart íslensku krónunni í dag, og fæst hann nú á 146,79 krónur, meðan breska pundið styrktist um 0,33%, upp í 182,41 krónu.