*

þriðjudagur, 20. október 2020
Innlent 8. ágúst 2020 12:01

Hækkun markaða hífir upp afkomuna

Viðskiptabankarnir þrír töpuðu á fyrri helmingi árs í fyrsta sinn frá endurreisn þeirra, verulegur viðsnúningur var á hreinum fjármunatekjum.

Alexander Giess
Bankastjórar viðskiptabankanna þriggja, Lilja Björk Einarsdóttir hjá Landsbankanum, Birna Einarsdóttir hjá Íslandsbanka og Benedikt Gíslason hjá Arion banka.

Afkoma viðskiptabankanna þriggja á fyrri helmingi árs var í fyrsta sinn frá endurreisn þeirra neikvæð en bankarnir þrír birtu allir árshlutauppgjör sín í síðustu viku. Samanlagt nam tap bankanna 676 milljónum króna en þeir högnuðust um tæplega 19 milljarða króna á fyrri helmingi ársins 2019.

Niðurstaðan litast einna helst af fordæmalausu tapi á fyrsta fjórðungi ársins en samanlagður hagnaður bankanna þriggja á öðrum fjórðungi nam 6.499 milljónum króna. Það er 24% samdráttur á milli ára en hagnaður þeirra nam 8.542 milljónum á öðrum fjórðungi ársins 2019, sem í sögulegu samhengi er nokkuð lágur hagnaður.

Afkoma Landsbankans vegur þyngst á báðum fjórðungum ársins. Hann hagnaðist um 341 milljón króna á öðrum fjórðungi en afkoma hans var neikvæð um tæplega 3,3 milljarða á fyrri hluta ársins. Neikvæð áhrif heimsfaraldursins hafa til þessa hvað helst komið fram í afskriftum á lánasafni bankanna.

Alls færðu bankarnir niður lán um 23 milljarða á fyrri hluta ársins en af þeim færði Landsbankinn niður lán upp á um 13,4 milljarða. Til samanburðar nam niðurfærsla Landsbankans 2,3 milljörðum á fyrri hluta ársins 2019. Bankinn er með stærstu lánabókina, um 1.200 milljarða króna, en hlutfallsleg niðurfærsla hans er einnig sú hæsta. Hún vegur 0,68% af heildarútlánum til viðskiptavina, 0,64% hjá Íslandsbanka og 0,48% hjá Arion banka og kann slíkt að skýra að hluta til slæma afkomu Landsbankans.

Veruleg virðisrýrnun en vöxtur fjármunatekna vegur á móti

Verulegur viðsnúningur átti sér stað á hreinum fjármunatekjum milli fjórðunga sem skýrir að miklu leyti breytta afkomu. Bankarnir högnuðust um 5,3 milljarða vegna hreinna fjármunatekna á öðrum fjórðungi ársins en töpuðu 6,3 milljörðum á þeim fyrri. Þær voru því neikvæðar um ríflega milljarð króna á fyrri hluta ársins en jákvæðar um 7,6 milljarða á sama tímabili árið 2019.

Viðsnúningurinn skýrist hvað helst af mikilli hækkun hlutabréfa eftir sögulega lækkun á fyrsta fjórðungi ársins. Úrvalsvísitala OMXI10 stóð í 2.121 stigi í upphafi árs en 1. apríl hafði hún lækkað í 1.729 stig eða um rúm 18%. Á næsta fjórðungi náði hún nær fyrri hæðum og hækkaði um tæplega 20%. Sambærilega sögu má segja af hlutabréfamörkuðum erlendis.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.