Rannsóknarsetur verslunarinnar hefur endurútgefið útreikninga um áhrif fjárlagafrumvarps á matvælaverð. Samkvæmt eldri útreikningum var áætlað að verð á matvælum myndi hækka um 42.000 krónur að meðaltali á ársgrundvelli vegna hækkunar matarskatts.

Útreikningar taki mið af öðrum þáttum

Nýir útreikningar voru birtir í ljósi þess að ekki þótti rétt að mæla eingöngu áhrif af hækkun lægra þreps virðisaukaskatts á matvælaverð og undanskilja áhrif af afnámi sykurskatts þegar heildaráhrif frumvarpsins væru metin í þessu samhengi.

Í endurútgefnum útreikningum eru áhrif hækkunar af neðra þrepi enn áætluð þau sömu og áður, en séu áhrif af niðurfellingu sykurskatts tekin með í dæmið mun verð að meðaltali hækka um 21.029 kr á ársgrundvelli. Minnst er hækkunin í krónum talið hjá tekjulægsta fjórðungi, 16.763 kr og mest hjá tekjuhæsta fjórðungi, 26.489 kr.

Mikilvægt að skoða frumvarpið í heild

Fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár hefur sætt mikilli gagnrýni, einkum fyrir hækkun á lægra þrepi virðisaukaskatts. Stjórn VR hefur til dæmis fullyrt að breytingin leggist með „næstum tvöfalt meiri þunga á lægsta tekjuhópinn en þann hæsta," og hefur lýst því sem aðför að launafólki. ASÍ hefur tekið í sama streng. Þingmenn stjórnarandstöðu hafa einnig gagnrýnt hækkun skattsins harðlega í umræðum um frumvarpið og aðrar fyrirhugaðar lagabreytingar í tengslum við það.

Í greiningu frá Viðskiptaráði Íslands sem gefin var út þann 12. september síðastliðinn eru dregin saman heildaráhrif fjárlagafrumvarpsins. Þar segir að nærtækara sé að meta heildaráhrif frumvarpsins í stað þess að taka sérstaklega út ákveðna þætti þess, en slíkt gefi betri mynd af raunverulegum áhrifum þess á ráðstöfunartekjur heimila. Í greiningunni kemur fram að kaupmáttaraukning muni að meðaltali verða 0,4% verði frumvarpið samþykkt óbreytt og örlítið meiri hjá tekjulægsta fjórðungi, eða 0,5%.