Hlutabréf hækkuðu í Asíu í dag. Þó svo að hækkunin hafi ekki verið mikil er þetta mesta hækkun markaða frá því um síðustu mánaðarmót eða í þrjár vikur.

MCSI Kyrrahafsvísitalan hækkaði um 2% í dag. Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar má helst rekja hækkanir dagsins til frétta um aukna sölu á húsnæði í Bandaríkjunum sem voru birtar í gær. Það þykir gefa til kynna að bandarískt hagkerfi sé smán saman að rétta úr kútnum sem gæti haft góð áhrif á framleiðslumarkaði í Asíu.

Þá bárust einnig fréttir frá því í gær að Seðlabanki Evrópu hefði lánað yfirvöldum á Spáni eftir skuldabréfaútboð, sem að sögn viðmælanda Reuters fréttastofunnar mun vonandi verða liður í því að koma ró á markaði í Evrópu.

Í Japan hækkaði Nikkei vísitalan um 1,5% í dag, í S-Kóreu hækkaði Kospi vísitalan um 3,1% en í Kína lækkaði Shanghai vísitalan um 1,1%.

Í Hong Kong hækkaði Hang Seng vísitalan um 1,6% og í Ástralíu hækkaði S&P200 vísitalan um 2,2%. Mesta hækkunin varð þó í Tævan þar sem Taiex vísitalan hækkaði um 4,6%. Sú hækkun kom í kjölfar yfirlýsingar frá seðlabankastjóra landsins, Sean Chen, að bankinn myndi nota þar tilgerðar varasjóð til að kaupa hlutabréf ef á þyrfti að halda til að róa markaði.