Mikilvægt er að ökumenn skipti út nagladekkjum sem fyrst til að minnka líkur á svifryksmengun segir í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg. Styrkur svifryks verður líklega yfir sólarhringsheilsuverndarmörkum í dag en litlar líkur eru taldar á úrkomu næstu daga og því líklegt að styrkur svifryks fari yfir heilsuverndarmörk.

Styrkur svifryks (PM10) er hár í dag, 5. apríl samkvæmt mælingum í mælistöðvum við Grensásveg, Hringbraut. Klukkan 11:00 var hálftímagildi svifryks við Grensásveg 131 míkrógrömm á rúmmetra. Í mælistöð við Hringbraut var hálftímagildið á sama tíma 113 míkrógrömm á rúmmetra. Í mælistöðvum við Eiríksgötu og í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum voru svifryksgildin mun lægri.

Nú er hægur vindur, götur þurrar og litlar líkur á úrkomu næstu daga. Búist er við svipuðum veðurfarsaðstæðum á næstunni og því líkur á svifryksmengun við umferðargötur. Sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.