Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir ljóst að ríkissjóður sé að koma betur út úr kórónuveirufaraldrinum en búist var við og að tekjur ríkisins séu umfram áætlanir. Eftir stendur þó að hallarekstur ríkissjóðs verður áfram mikill og það mun taka ríflega fimm ár að vinna hann niður í áþekkt stig og hann var fyrir faraldurinn.

„Seðlabankinn er í vaxtahækkunarfasa og það er spáð kröftugum hagvexti en engu að síður er gert ráð fyrir verulegum hallarekstri til ársins 2026. Það má velta fyrir sér hvort ríkisfjármálin styðji nægilega vel við Seðlabankann, einn af þremur örmum hagstjórnar, og hvort fjárlögin séu einfaldlega of útþenslumikil."

Að sama skapi bendir Halldór á að ákveðið var að fresta stöðvun skuldaaukningar um eitt ár þrátt fyrir að tekjustofnar ríkisins séu kröftugri en gert var ráð fyrir. Samhliða þessu aukist vaxtakostnaður sem er orðinn fimmti stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs.

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að tímabundin lækkun almenna tryggingagjaldsins um 0,25 prósentur, sem var hluti af aðgerðum haustið 2020 til að tryggja að kjarasamningar héldu, gangi til baka í árslok 2021 og álagningarhlutfallið fari því aftur upp í 6,35%. Áætlað er að tekjur ríkisins af tryggingagjaldinu hækki úr 94 milljörðum, sem áætlaðir voru í fjárlögum 2021, í 107 milljarða á næsta ári sem skýrist einnig af stærri launastofni.

„Það eru vonbrigði að tímabundin lækkun tryggingagjalds, sem er ætlað að bregðast við höggi á atvinnulífið, sé ekki framlengd enda eru fjöldamörg fyrirtæki enn í sárum eftir faraldurinn. Ég geri ráð fyrir því að þetta muni breytast í meðförum þingsins," segir Halldór.

Brestir í samspili stuðningskerfa og vinnumarkaðar

Halldór bendir jafnframt á að kostnaður vegna atvinnuleysis sé mikill samkvæmt fjárlögunum en á sama tíma sé atvinnuleysi á hröðu undanhaldi. „Ég tel því eðlilegt að það verði endurskoðaður ramminn utan um atvinnuleysistryggingar."

Hann segir að út frá atvinnuleysistölum megi sjá að tilfærsla hafi átt sér stað frá skammtímavinnuleysi yfir í langtímaatvinnuleysi, líkt og varað er við í fjárlagafrumvarpinu.

„Það eru næg störf að hafa í landinu og við heyrum þá sögu frá atvinnurekendum hringinn í kringum landið að það gangi erfiðlega að manna stöður. Það segir manni að það virðist vera eitthvað brotið í samspili stuðningskerfanna og vinnumarkaðar," segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .