Tvær helstu hlutabréfavísitölur Bandaríkjanna lækkuðu í gær í fyrsta skipti í heilan mánuð um meira en 1%. Lækkaði Dow Jones vísitalan um 1,14% og S&P 500 vísitalan um 1,24%, en hvorug þeirra hafði lækkað um 1% eða meira á einum viðskiptadegi í 110 daga.

Fjármálafyrirtæki leiddu lækkunina, en gengi bréfa í Goldman Sachs Group lækkaði til að mynda um 3,77%, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um keypti félagið nýlega hlut í Arion banka.

Einnig lækkuðu bréf J.P.Morgan Chase & Co, um 2,93%, og annarra fjármálafyrirtækja. Hækkunartímabilið hefur staðið yfir síðan sigur Donald Trump Bandaríkjaforseta varð ljós, í krafti væntinga um skattalækkanir og aðrar aðgerðir bandaríska ríkisins sem hentugar væru fyrirtækjum, eins og miklar fjárfestingar í innviðauppbyggingu.

Hækkunartímabilið er það lengsta í sögu S&P 500 vísitölunnar síðan í maí 1995 og sömuleiðis í tilviki Dow Jones síðan í september 1993.

Sumir markaðsaðilar virðast telja nú að stefnumörkun Trump gæti tafist vegna þess að heilbrigðisfrumvarp Repúblikanaflokks hans í þinginu virðist ekki ætla að eiga auðvelda siglingu í gegnum þingið. Frumvarpið á að koma í stað frumvarps Obama sem gerði veigamiklar breytingar á bandarísku heilbrigðiskerfi.