Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,25% í ágúst frá fyrri mánuði eins og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá . Það þýðir að verðbólga í ágúst sé 1,7%. Hækkaði vísitalan því talsvert minna en flestir greiningaraðilar gerðu ráð fyrir. Til að mynda þá spáði Íslandsbanki því að vísitalan myndi hækka um 0,4% á milli mánaða, Arion banki spáði einnig 0,4% hækkun. IFS Greining spáði 0,6% hækkun vísitölunnar milli mánaða og það sama á við um Hagfræðideild Landsbankans .

Íslandsbanki hefur gefið frá sér greiningu þar sem fram kemur að lítil hækkun íbúðaverðs og óvenju lítil áhrif útsöluloka eru stærstu ástæður þess að vísitala neysluverðs hækkaði minna í ágústmánuði en vænta mátti. „Hægari hækkun íbúðaverðs og áhrif aukinnar samkeppni á verð innfluttra vara gætu orðið til þess að verðbólga haldist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans út yfirstandandi ár,“ segir í greiningu Íslandsbanka.

Verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands er 2,5% og að mati Íslandsbanka mun verðbólga að öllum líkindum haldast undir því markmiði á þessu ári. Þeir spá því að verðbólga muni mælast 2,1% í nóvembermánuði 2017 samkvæmt uppfærðri spá. Þar kemur fram að hækkun á vísitölu neysluverðs gæti verið minni en ætla mætti vegna aukinna áhrifa af vaxandi samkeppni á smásölumarkaði.