Nýlega var þess minnst að 100 ár eru liðin frá fæðingu hagfræðingsins MIlton Friedman. Fáir menn hafa haft meiri áhrif á samtíma sinn og hann, en þegar vegur og virðing Friedmans eru höfð í huga er ef til vill ekki við öðru að búast en að hann hafi safnað að sér haturs- og öfundarmönnum. Ekki voru allir hagfræðingar sammála honum og margir gagnrýndu hann á málefnalegan hátt, en sumir þeirra létu andúðina hlaupa með sig í gönur.

Árið 2006 skrifaði nóbelsverðlaunahafinn og pistlahöfundurinn Paul Krugman grein, sem birtist í New York Review aðeins nokkrum mánuðum eftir andlát Friedmans. Þar sakaði hann Friedman um að vera fræðilega óheiðarlegur vegna skrifa sinna um áhrif seðlabankans á kreppuna miklu. Vildi Krugman meina að maður, sem héldi því annars vegar fram að kreppan væri seðlabankanum að kenna vegna þess að hann hefði ekki aukið magn peninga í umferð, gæti ekki einnig haldið því fram að kreppan hefði orðið vægari ef seðlabankans hefði ekki notið við.

Donald Boudreux, prófessor við George Mason háskóla, gerði þessi ummæli að umfjöllunarefni í nýlegum pistli í Wall Street Journal. Þar segir hann ásakanir Krugmans „hlægilegar“. Friedman hefði litið svo á að án seðlabankans hefðu einkabankar séð um útgáfu peninga og þar með hefðu þeir og markaðurinn séð til þess að magn peninga hefði ekki hrunið eins og varð á fjórða áratugnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.