„Samtals sóttu 154 einstaklingar um hæli á Íslandi á tímabilinu 1. janúar 2015 til 31. ágúst 2015. Er það 66% aukning miðað við sama tíma árið 2014 en þá höfðu 93 sótt um hæli," segir í frétt á vef innanríkisráðuneytis.

Mest var sótt um í ágúst, en þá sóttu samtals 49 manns um hæli. Það eru jafnmargir og sóttu um hæli þrjá mánuði þar á undan samanlagt.

„Til að setja töluna í samhengi þá sóttu alls 35 manns um hæli á Íslandi árið 2009 og 50 árið 2010," segir jafnframt.

Flestir hælisleitendur frá Albaníu

„Umsækjendur eru af samtals 32 þjóðernum auk þess sem einn umsækjandi er ríkisfangslaus. Albanir eru langfjölmennastir og telja 51 umsækjanda, rétt tæplega þriðjung allra umsókna. Í ljósi borgarastyrjaldarinnar sem geisað hefur í Sýrlandi síðan árið 2011 þarf ekki að undrast að Sýrlendingar eru næstfjölmennasta þjóðernið meðal umsækjenda. Þeir eru átján talsins eða 12% allra umsókna," segir í frétt ráðuneytisins.

Enginn sendur aftur til Sýrlands

Á vef innanríkisráðuneytis segir að átta umsóknum Sýrlendinga hafi verið lokið það sem af er ári með ákvörðun útlendingastofnunar. Fjórir fengu stöðu flóttamanna en þrír voru sendir til annars Evrópuríkins með vísan til Dyflinnarreglugerðarinnar. Í einu tilfelli var hælisleitanda sem þegar hafði fengið hæli í öðru Evrópulandi vísað aftur til þess lands.

„Í ljósi borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi kemur ekki til greina að vísa Sýrlendingum aftur þangað. Sé hætta á að sýrlenskum umsækjendum sé vísað þangað, verði þeim snúið til annars Evrópuríkis, kemur ekki til greina að senda þá til viðkomandi ríkis," segir í frétt ráðuneytisins.

Þá kemur fram að 48 manns hafi fengið hæli frá byrjun janúar til loka ágúst, eða í 35% tilvika, en 36% hefur verið synjað um hæli „og ræður hið háa hlutfall umsækjenda frá Balkanskaga miklu þar um."