*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Innlent 17. október 2017 11:08

Hælisumsóknum fækkar um 40%

Breytingar dómsmálaráðherra á reglugerð um útlendinga talin snúa við mikilli fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd hér á landi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Í september voru 104 umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi, sem er um þriðjungsfækkun frá því í ágúst þegar umsóknirnar voru 154, og 40% fækkun frá því í september í fyrra þegar þær voru 176. Flestir þeirra sem sóttu um í septembermánuði síðastliðnum voru frá Georgíu og Albaníu.

Um er að ræða töluverð umskipti því síðustu tvö ár hefur umsóknum fjölgað umtalsvert á haustin að því er Morgunblaðið greinir frá. Er talið að fækkunina megi að hluta til rekja til breytinga Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra á reglugerð um útlendinga sem tók gildi í sumar. Veitir hún rétt til að hraða málsmeðferð og fella niður framfærslu vegna tilhæfulausra umsókna.

Þetta er í fyrsta skipti á árinu síðan umsóknum hefur fækkað milli ára borið saman mánuð fyrir mánuð, en það sem af er októbermánuði hafa umsóknirnar verið 35 sem er minnsti fjöldi umsókna síðan í maí á þessu ári. Á fyrstu níu mánuðum þessa árs hafa í heildina 883 umsóknir borist um hæli, eða alþjóðlega vernd eins og það er einnig kallað, hér á landi, sem er 60% fleiri en á sama tímabili í fyrra þegar þær voru 561.