*

þriðjudagur, 26. janúar 2021
Innlent 25. nóvember 2020 13:09

Hæpnar heimildir fyrir ráðstöfunum

Lögmaðurinn Reimar Pétursson telur sóttvarnarlög ófullnægjandi sem grundvöll aðgerða og spyr hví breytingar séu fyrst að koma fram nú.

Jóhann Óli Eiðsson
Reimar Pétursson er hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi formaður Lögmannafélags Íslands.
Haraldur Guðjónsson

„Af hverju var ekki lagt fram frumvarp til breytinga á sóttvarnalögum strax í mars? Ég hef hvergi séð frambærilegar skýringar á því,“ sagði hæstaréttarlögmaðurinn Reimar Pétursson á rafrænu málþingi Orator, félags laganema við Háskóla Íslands, sem fram fór í hádeginu. Í máli Reimars kom fram að hann teldi að ráðist hefði verið í víðtækar sóttvarnaráðstafanir á grundvelli óskýrra og hæpinna fyrirmæla „mögulega í andstöðu við lög og stjórnarskrá“.

Yfirskrift málþingsins var hvort sóttvarnarlög stæðust stjórnarskrá. Aðrir frummælendur á málþinginu voru Sigurður Kári Árnason, yfirlögfræðingur heilbrigðisráðuneytisins, og Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Í upphafi síns erindis rakti Reimar grundvöll íslenskrar stjórnskipunar. Forseti og þing færu saman með lagasetningarvald en það væri framkvæmdavaldsins að framkvæma lögin. Handhafar löggjafarvalds séu kosnir í almennum, reglulegum kosningum og undirstriki slíkt lýðræðislegan grundvöll stjórnarskrárinnar. Ábyrgð og vald fari saman.

„Ráðherrar eru ekki kjörnir með beinum hætti þótt þeir séu yfirleitt þingmenn síns kjördæmis líka. Atkvæði þeirra í sínu kjördæmi eru oft fá og umboð þeirra byggist ekkert á þeirri atkvæðagreiðslu. Þess í stað byggist það á því að þingheimur uni þeim setu. […] Taki ráðherra sér lagasetningarvald ber hann ekki ábyrgð á því gagnvart öllum kjósendum,“ sagði Reimar.

Lögmaðurinn rakti dómaframkvæmd Hæstaréttar í þessum efnum og vísaði meðal annars til hins víðfræga dóms í máli Stjörnugríss. Í því máli var það talið brjóta gegn stjórnskipaninni að heimila umhverfisráðherra að ákveða með reglugerð hvaða framkvæmdir skyldu háðar umhverfismati. Breytti engu í þeim efnum að í reglugerðinni væri vísað til Evrópugerða. Löggjafinn yrði að taka afstöðu til þessara álitaefna og afmarka takmörk og umfang skerðingar stjórnarskrárvarinna réttinda.

Innleiðing reglugerðar rannsóknarefni

„Í sóttvarnarlögum er að finna tilteknar heimildir til ráðstafana en fyrirmælin eru afar fáorð. Enn fáorðari eru síðan ákvæði um hvað felst efnislega í þessum ráðstöfunum. Skilgreiningar eru engar og umfang og takmörk eru í engu lagi orðuð í lögum,“ sagði Reimar.

Benti hann á að lögin heimiluðu aðeins að svipta þá frelsi sem sannarlega væru veikir og að orðið „sóttkví“ væri hvergi nefnt í lögunum. Þá fælu þau í sér heimild til að framkvæma einfalda læknisskoðun við komu til landsins. Færa megi fyrir því rök að seinni skimum og margra daga sóttkví milli skoðana sé því í andstöðu við lögin.

„Stjórnarskráin og mannréttindasáttmáli Evrópu tryggja þann rétt að menn verði aðeins sviptir frelsi njóti þeir raunhæfs réttar til að bera þá ákvörðun undir dómstóla. Breytir engu í þeim efnum þótt rétturinn til lífs geti verið í húfi fyrir aðra. Ákvæði sóttvarnarlaga innihalda ekkert sem bendir til þess að löggjafinn hafi haft sóttkví í huga þegar þau voru samþykkt,“ sagði Reimar.

Tilvísanir til alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar stoðuðu síðan lítt enda hefði hún ekki verið innleidd og birt samkvæmt íslensknum lögum. Einnig hafi setningarháttur hennar í öndverðu verið áhugaverður og sérstakt rannsóknarefni hvernig staðið var að henni og hvort það valdframsal samræmdist íslenskum lögum og stjórnskipan.

Enginn ágreiningur um óskýr sóttvarnarlög

„Það er ágreiningslaust að sóttvarnarlög eru fjarri því skýr eða ótvíræður grundvöllur fyrir þessum ráðstöfunum. Umfjöllun um lögmæti þeirra er lögfræðilegt verkefni og við það verk ber að beita lögfræðilegum aðferðum. Fullyrðingar um neyðarástand eða réttinn til lífs breyta engu í þeim efnum,“ sagði Reimar.

Benti hann á að samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð varði það ráðherra refsiábyrgð ef hann gefur út fyrirmæli sem eftir stjórnarskránni verður aðeins skipað með lögum eða heyrir undir dómstóla. Slíkt mál hafi komið upp í Danmörku nýverið þegar ráðherra, sem nú hefur sagt af sér, fyrirskipaði förgun minnkastofnsins þar í landi í nafni sóttvarna án þess að hafa til þess lagaheimild. Enn fremur benti Reimar á að ef ráðherra vill hafa vaðið fyrir neðan sig í sóttvarnaraðgerðum séu ýmis úrræði sem standi honum til boða.

„Ráðherra hefur til að mynda heimild til útgáfu bráðabirgðalaga en því skal þó haldið til haga að ég efast um að slíkt neyðarástand hafi ríkt sem réttlæti það. Enn fremur hefði verið hægt að leggja fram frumvarp til breytinga á sóttvarnalögum strax í mars. Í Danmörku var það gert fyrst um miðbik mars og aftur í byrjun apríl. Sú staðreynd að slíkt frumvarp er að koma fram nú hér á landi sýnir hve hefur verið haldið illa á málum,“ sagði Reimar.

Erfitt sé að sjá hví það var hægt í Danmörku í tvígang en ekki hér. Niðurstaðan sé því sú að heilbrigðisráðherra og stjórnvöld hafi ákveðið að ráðast í víðfeðmar sóttvarnarráðstafanir, á grundvelli óskýrra og hæpinna fyrirmæla, mögulega í andstöðu við lög og fyrirmæli stjórnarskrár. Ekki verði séð að nokkuð neyðarástand hafi kallað á slíkt.

„Þá hlýtur að þurfa að spyrja, af hverju var frumvarp ekki lagt fyrir þingið strax í mars? Ég hef hvergi séð frambærilegar skýringar á því. Á meðan svo er verður að spyrja spurninga. Má vera að þingmeirihluta hafi skort fyrir ákveðnum þáttum í sóttvarnaráðstöfunum? Skorti þingmeirihluta fyrir tvöfalda skimun og sóttkví á landamærunum? Getur verið að ekki hafi verið meirihluti fyrir því að senda heilbrigða einstaklinga í sóttkví án þess að hann geti borið það undir dómstóla? Eða getur verið að meirihluta þingmanna hafi þótt þægilegt að geta vísað til þess að það séu ráðherrar en ekki þingmenn sem bera ábyrgð á sóttvarnaraðgerðum og afleiðingum þeirra,“ sagði Reimar.

„Þessum spurningum verður að svara og sé þeim svarað neitandi þá þýðir það aðeins óðagát, fum, horðvirkni og óvönduð vinnubrögð.“