Orkuveita Reykjavíkur (OR) hagnast um 5,9 milljarða á fyrstu þremur mánuðum ársins, einna helst vegna hækkunar álverðs.

Til samanburðar var félagið rekið með 2,6 milljarða tapi af sömu orsökum á fyrstu þremur mánuðum síðasta árs. Þá sagði Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitunnar, við Morgunblaðið að liður sem nefnist „gangvirðisbreytingar innbyggðra afleiða í raforkusölusamningum“, ylli sífelldum ruglingi.

„Í raun og veru eru þetta ekki peningar, heldur bara reiknaðar stærðir. Ég kalla þetta stundum froðu,“ sagði Bjarni við Morgunblaðið fyrir ári.

Umræddur liður var neikvæður um 7,8 milljarða á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020 en er nú jákvæður um 2,5 milljarða króna í ár og því munurinn yfir 10 milljarðar króna. Í uppgjörinu er bent á að álverð hafi lækkað ört í upphafi kórónuveirufaraldursins fyrir ári. Stærsti einstaki tekjuliður OR er raforkusala til Norðuráls á Grundartanga en sá raforkusölusamningur er tengdur þróun álverðs. Lækkað mat á verðmæti samningsins við lækkun álverðs kom niður á reiknaðri afkomu OR á fyrsta ársfjórðungi 2020 en bætir hana nú til muna.

Þá er gengismunur nú jákvæður um 1,9 milljarða króna en var neikvæður um nær 2,8 milljarða króna fyrir ári.

Rekstrartekjur og kostnaður OR tóku mun minni breytingum. Rekstrartekjur hækkuðu úr 13,3 milljörðum í 13,7 milljarða. Þá lækkuðu rekstrargjöld úr 4,7 milljörðum í 4,5 milljarða króna og rekstrarhagnaður nam 5,9 milljörðum króna en var 5,5 milljarðar í upphafi árs 2020.

Þá segir í uppgjörstilkynningu að töluverðar fjárfestingar séu fram undan hjá OR sem voru að hluta til hugsaðar til að sporna við áhrifum kórónuveirufaraldursins en gengu ekki allar eftir á árinu 2020. Því sé mikilvægt að lausafjárstaða OR og dótturfélaga sé sterk.

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR:

Það er ánægjulegt að traust tök okkar á rekstrarkostnaði skili sér svona greinilega í bættri afkomu um leið og ytri aðstæður eru hagstæðari. Við skilum líka árangri á fleiri sviðum rekstursins en því fjárhagslega. Veitureksturinn er traustur og okkur gengur vel að halda aftur af gjaldskrárhækkunum, virkjanirnar skila því sem ætlast er til af þeim, Ljósleiðarinn nær til sífellt fleiri heimila og fyrirtækja og á síðustu vikum og mánuðum hefur Carbfix fengið mikinn byr í seglin. Rekstur undir hatti Orkuveitu Reykjavíkur er umfangsmikill og mér sýnist okkar frábæra starfsfólk og stjórnendur standa sig vel í að sinna þeirri mikilvægu þjónustu sem okkur er trúað fyrir.