Meðalverð á heimsmarkaði á öðrum ársfjórðungi þessa árs var USD 1,057 á tonn samanborið við USD 721 á tonn á öðrum ársfjórðungi í fyrra. Þetta jafngildir 47% hækkun, sem leiddi til kostnaðarhækkunar hjá Icelandair Group um 1,7 milljarða króna samkvæmt Markaðspunktum Arion banka. Hátt olíuverð kemur eðlilega niður á framlegð flugfélaga og áframhaldandi hátt olíuverð mun setja pressu á hagnað þeirra. Meðalverð á þriðja ársfjórðungi hefur verið um USD 1,037 á tonn og telur greiningardeild Arion banka nokkuð líklegt að olíuverð haldist áfram hátt út árið og fram á næsta ár.