Opinber gjöld aðildarfélaga Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) verða 25,4 milljarða króna á næsta ári að óbreyttu. Gjöldin námu 21,6 milljarði króna árið 2007. Enn frekari aukning ótekjuótekjutengdra gjalda sem boðuð er í fjárlagafrumvarpi árins 2014, hækkun á bankaskatti og nýlega boðuðum aðgerðum vegna skuldaniðurfærslu ríkisstjórnarinnar mun hafa áhrif á kostnað og vaxtamun lánastofnana. Þetta segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka og formaður Samtaka fjármálafyrirtækja.

Höskuldur hélt erindi við setningu SFF-dagsins í dag. Þar kom hann m.a. inn á bankaskattinn sem verður hækkaður úr 0,041% í 0,366%, ser er níföldun og skila skatttekjum upp á 9,5 milljarða króna. Höskuldur sagði skattlagninguna langt umfram það sem gerist í nágrannalöndum og sé hliðstæður skattur þar sem hann hefur á annað borð verið tekinn upp á bilinu 0,02% til 0,04%.

„Aðildarfyrirtæki SFF eru stolt af því að leggja umtalsverð lóð á vogarskálarnar þegar kemur að rekstri hins opinbera – og við færumst ekki undan því – en, hins vegar blasir við að þegar skattheimta og álagning opinberra gjalda verður umfram það sem getur talist eðlilegt þá bitnar það á endanum á þeirri mikilvægu þjónustu sem fjármálafyrirtæki veita heimilum og fyrirtækjum,“ sagði Höskuldur.