Árlega nemur fyrirframgreiddur arfur um 10 til 14 milljörðum króna, og er það almennt nálægt þriðjungi af þeim arfi sem alla jafna kemur til skipta í dánarbúunum sjálfum að því er Morgunblaðið greinir frá. Það er um 28 til 35% af þeim 20 til 35 milljörðum króna sem skilað hafa sér til erfingja við andlát.

Eins og fjallað hefur verið um í fréttum námu heildararfgreiðslur á síðasta ári 47 milljörðum króna , en ríkið hirti 4,5 milljarða af því. Ef nýtt frumvarp um helmingslækkun erfðafjárskatts á fyrstu 75 milljónirnar að veruleika lækkar sú fjárhæð um 2 milljarða króna.

Lækkunin nær þó ekki til fyrirframgreidds arfs svo líklegt má telja að hvatinn til að nýta fyrirframgreiðslur til að mynda til að hjálpa til við fyrstu íbúðakaup minnki. Þó er hvatinn nú þegar nokkru minni því ekki er 1,5 milljóna króna skattleysismörk á fyrirframgreiddum arfi líkt og ef arfurinn tæmist við andlát. Þannig voru 1,2 til 1,4 milljarðar greiddir til ríkisins af fyrirframgreiddum arfi á síðustu þremur árum.

Þrátt fyrir þetta virðist sem þær fjárhæðir sem fólk fái í fyrirframgreiddan arf séu nokkuð hærri en sá sem fáist við andlát, en á síðasta ári var hann að meðaltali 10 milljónir króna á hvern fyrirframarfþega á móti 7,6 milljónum að meðaltali eftir dauðsfall. Árin á undan var fjárhæðin 6 til 9 milljónir á móti 5 til rúmlega 6.

Á árunum 2014 til 2018 fengu 340 til 524 einstaklingar arfgreiðslur á ári hverju fyrirfram, en um 900 til 1.100 fengu hefðbundinn arf greiddan út. Síðan 2007 hafa rúmlega 31 milljarður verið greiddur til ríkisins í erfðafjárskatt.